145. löggjafarþing — 104. fundur,  29. apr. 2016.

rannsókn á aflandsfélögum Íslendinga og skattundanskotum.

711. mál
[12:11]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég ætla að gera athugasemdir við fundarstjórn forseta. Mér finnst það vera ansi sérstakt þegar menn eru farnir að misnota þennan lið alveg miskunnarlaust eins og gert er hér í dag. Það er búið að setja Íslandsmet í því á þessu þingi af hv. stjórnarandstöðu til þess að tefja gang mála, en það er ansi sérstakt þegar menn eru farnir að tefja fyrir eigin máli. Þær aðdróttanir sem ganga út á að hv. stjórnarþingmenn séu ekki að fylgjast með, standast bara ekki neina skoðun. Hv. þm. Helgi Hrafn þekkir það ágætlega því að hann var við hliðina á okkur sjö stjórnarþingmönnum áðan sem vorum að fylgjast með umræðunni.

Ég skil ekki hvernig í ósköpunum menn geta ætlast til þess að hægt sé að taka hv. Alþingi alvarlega ef menn ganga fram með þessum hætti. Það er bara sjálfsagt að skammast í ríkisstjórninni og stjórnarflokkunum eins mikið og menn vilja, en nú er þetta mál komið á dagskrá sem er ykkar mál, þið báðuð um það, og þá koma menn og reyna að tefja (Forseti hringir.) fyrir þingstörfum. Og virðulegur forseti gerir ekki neitt. (Forseti hringir.) Ég geri alvarlegar athugasemdir við fundarstjórn forseta.