145. löggjafarþing — 104. fundur,  29. apr. 2016.

rannsókn á aflandsfélögum Íslendinga og skattundanskotum.

711. mál
[12:16]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Annan daginn í röð kemur hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson og tekur þátt í umræðum um fundarstjórn forseta og skammast yfir því að menn skuli gera athugasemdir við þátttökuleysi stjórnarflokkanna í umræðum um aflandsmálin og eys í leiðinni vandlætingu sinni yfir þingheim. (Gripið fram í.) Þetta eru risastór mál sem hér eru undir. Hvað erum við að biðja um? Við erum að biðja um umræðu á Alþingi Íslendinga um skattaskjólsmál. Hvert er svar og hver eru viðbrögð stjórnarflokkanna? Að ausa vandlætingu yfir okkur sem tökum þátt og óskum eftir að þeir komi til viðræðu við okkur. Það er framlag ríkisstjórnarflokkanna til þessarar umræðu.

Virðulegi forseti. Frá því að þetta mál kom upp hefur aldrei að frumkvæði stjórnarflokkanna verið tekin umræða um það í þinginu. Aldrei. Allar þær vikur sem þetta mál hefur verið hér til umræðu. Hvaða sögu segir það okkur um viðhorf þessara flokka gagnvart málinu? Gæti verið að fjarvera þingmanna Framsóknarflokksins hér í salnum (Forseti hringir.) skýrist af því að þeir séu heima að lesa Fréttatímann og velta því fyrir sér hvernig þeir eigi að klóra sig út úr því sem þar kemur fram?