145. löggjafarþing — 104. fundur,  29. apr. 2016.

rannsókn á aflandsfélögum Íslendinga og skattundanskotum.

711. mál
[13:35]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég vil eins og fleiri þingmenn hafa gert hér að undanförnu í umræðunni og í umræðum um fundarstjórn forseta vekja athygli á því að forustumenn stjórnarflokkanna skuli velja að vera algerlega fjarstaddir og ríkisstjórnarbekkirnir tómir meðan við ræðum þetta stóra mál. Með einstöku ánægjulegum undantekningum þá eru frekar fáir þingmenn stjórnarliðsins hér sömuleiðis.

Ég held að sé ágætt að byrja aðeins á því, þegar við ræðum skattaskjól og skattundanskot í gegnum aflandsfélög, að ræða hin hugmyndafræðilegu tengsl. Veruleikinn er nefnilega sá að þetta er skilgetið afkvæmi nýfrjálshyggjunnar, nýkapítalismans, og tilrauna hans til þess að gera allan heiminn án landamæra að vígvelli sínum. Þessi hugmyndafræði fékk að ráða á Íslandi í ein 18 ár, þá komst hún reyndar í þrot. Nú eru því miður sömu flokkar aftur við völd. Þetta var allt saman og er allt saman í boði Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins. Þeir fóru hér með völdin frá 1995 til 2007 og gerðu ekkert — gerðu ekkert í því að koma í veg fyrir starfsemi af þessu tagi. Þvert á móti vildu þeir breyta Íslandi í svona skattaskjól. Það voru gefnar út skýrslur, það voru haldnar ráðstefnur og það voru keypt gögn, settir menn í vinnu um að breyta Íslandi í Tortólu. Þeir vanræktu algerlega að taka á því sem önnur lönd almennt voru þó að gera á svipuðum tíma, að reyna að sporna gegn því að skatttekjur rynnu beinlínis úr landi í stórum stíl til lágskattasvæða af þessu tagi. Þetta er skilgetið afkvæmi græðgiskapítalismans og hugmyndafræðinnar sem hann byggir á. Markmiðið er að hámarka gróðann, skammtímagróðann, græða sem mest, blóðmjólka hagkerfi landanna, flá innan úr fyrirtækjunum verðmæti og koma þeim til hliðar, koma þeim í skjól og reyna að sleppa sem mest undan því að borga skatta. Þetta er með öðrum orðum siðleysi á hæsta stigi. Þetta er ógeðslegasta birtingarmynd græðgiskapítalismans sem við sjáum í þessari starfsemi. Því miður hafa sterk hagsmunaöfl og lönd haldið verndarhendi sinni yfir þessu alveg fram undir síðustu ár.

Ég hef fylgst með og tekið þátt í umræðum um þetta, t.d. á vettvangi OECD, í gegnum Norðurlandaráð líka, var í sérstökum starfshópi Norðurlandaráðs á 10. áratug síðustu aldar, sem heimsótti m.a. OECD og vann með þeim og var að skoða þessi mál frá norrænum sjónarhóli. Það má OECD eiga að þeir hafa sinnt þessu máli, en vandinn hefur alltaf verið sá, alveg fram undir síðustu, ár að ákveðin hagsmunaöfl og lönd hafa haldið verndarhendi yfir þessari starfsemi. Bretland, Lúxemborg, Sviss, Bandaríkin, þvældust alltaf fyrir allri alþjóðlegri viðleitni við að loka skattaskjólum og gerðu öðrum löndum erfitt um vik. Nú er þar að vísu orðin breyting á þegar meira að segja skattaskjól eru orðin sérstakur dagskrárliður á fundum G7-ríkjanna, stærstu hagkerfa heimsins. Það er vegna þess að hin alþjóðlega fjármálakreppa 2008, 2009, opnaði auðvitað augu manna fyrir því hversu stórkostlega skaðleg þessi starfsemi er og dýr hún er löndunum. Þá fóru menn að hugsa sinn gang. Það hefur því verið breytt andrúmsloft til að vinna að þessum málum alveg upp á síðkastið, en auðvitað allt of seint.

Skattaskjólin eru kannski hvergi skelfilegri en í tilviki þróunarríkjanna sem eru með frekar veikburða stjórnkerfi og mikla spillingu. Það flæðir auður frá Afríku, Mið- og Suður-Ameríku inn í þessi skattaskjól í stórum stíl frá fátækum ríkjum þar sem spillt yfirstétt flytur hagnaðinn af nýtingu auðlinda eða atvinnustarfsemi úr landi. Það eru til skýrslur um hversu hroðalegar tölur þetta eru í tilviki Afríku. Afríka gæti orðið skuldlaus og aftur skuldlaus á örfáum árum ef arðinum væri ekki fleytt svona stanslaust út úr álfunni yfir í skattaskjól af spilltri yfirstétt með hjálp Vesturlanda að sjálfsögðu. Þau halda verndarhendi sinni yfir þessu.

Það er ekkert siðlegt við þetta. Ég fyrirverð mig fyrir að þurfa að hlusta á á köflum í umræðunni hér réttlætingu á þessu. Ég get ekki sætt mig við að Ísland sé með fjármálaráðherra sem talar af slíkri léttúð um þessa starfsemi sem raun ber vitni. Það var auðvitað ömurlegt að hæstv. fjármálaráðherra okkar skyldi birtast í Panama-skjölunum. En ég er farinn að hallast að því að af tvennu illu sé verra að hlusta á hann tala núna um skattaskjólin með þeim hætti sem hann gerir og reyna að draga upp þá víglínu að í raun og veru sé þetta allt í lagi bara ef menn stela ekki beinlínis sköttum. Bíddu, á að þakka mönnum sérstaklega fyrir það? Nema hvað. Auðvitað eigum við að ganga út frá því að menn borgi skatta. Það er ekki til að hrósa mönnum fyrir að þeir geri það. En við höfum ekkert nema þeirra eigin orð fyrir því reyndar, því að það er eitt af vandamálunum að ekki er hægt að sannreyna það nema með miklum erfiðismunum hvort rétt er upp gefið meðan menn hafa ekkert annað en orð þeirra sem eiga aflandsfélögin fyrir því að þeir hafi greint frá eignum þeirra með réttum hætti í sínum framtölum. Þá að sjálfsögðu eingöngu eftir 2010.

Stjórnarflokkarnir og ýmsir talsmenn þeirra hafa því miður í raun og veru varið aflandsvæðinguna í viðskiptalífinu með ræðuhöldum um að ekkert bendi nú til annars en að þetta hafi allt verið löglegt og ekkert bendi nú til annars en menn hafi borgað af því skatta. Er þetta þá í lagi? Nei. Getum við haft fjármálaráðherra sem er þar með að mæla því bót að menn færi arðinn úr landi? Því þetta er fjármagnsflótti. Aflandssvæðin eru heimahöfnin fyrir fjármagnsflóttann út úr hagkerfum Vesturlandanna og þróunarlandanna, því miður. Það eitt í sjálfu sér er skaðlegt jafnvel þótt það þýði ekki tapaðar skatttekjur.

Ég sætti mig ekki við þennan málflutning og mér finnst það lítilmótlegt af þeim formönnum stjórnarflokkanna að vera ekki menn til þess að koma hérna í umræðuna og ræða við okkur. Skömm þeirra má þá vera lengi uppi. Þjóðin mun taka eftir því að hvorki formaður Framsóknarflokksins eða varaformaður sem gegnir embætti forsætisráðherra né formaður Sjálfstæðisflokksins, hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra, koma hér og taka þátt í umræðunni. Segir fjarvera þeirra ekki ansi mikið, herra forseti? Er ekki þögnin dálítið æpandi? Er ekki fjarveran dálítið æpandi? Þeir treysta sér væntanlega ekki í þessa umræðu og af skiljanlegum ástæðum ef viðhorfin eru þau sem ætla má af ummælum þeirra undanfarna daga.

Þeir hafa jafnvel gengið svo langt, hæstv. ráðherrarnir, forsætisráðherrann núverandi og fjármála- og efnahagsráðherra, að reyna að klína því á síðustu ríkisstjórn að hún hafi með einhverjum hætti löggilt starfsemi aflandsfélaga. Ég hef aldrei heyrt annan eins málflutning. Hvaða lög voru það, herra forseti, sem sérstaklega heimiluðu aflandsfélög á síðasta kjörtímabili? Eru þeir ekki sjálfir að segja að þetta hafi allt verið löglegt 2005? Þurftum við þá að lögleiða eitthvað? Nei, auðvitað ekki.

Veruleikinn er sá að við erum eina ríkisstjórnin sem tókum á þessum málum. Við gerðum það með margvíslegum hætti. Við tvöfölduðum skatta á fjármagnstekjur. Við hertum löggjöfina um einkahlutafélög og komum í veg fyrir að menn gætu mokað stjórnlaust til sín gróða út úr einkahlutafélögum sem fjármagnstekjum en ekki launum. Og við innleiddum CFC-reglurnar, sem stendur fyrir Controlled Foreign Corporation og Ísland hefði átt að gera 15 árum fyrr, en ríkisstjórn sömu flokka og nú eru við völd vanrækti að gera. Við tókum á þessum hlutum, gerðum það sem í okkar valdi var til að lágmarka skaðann af þessu og það þýðir ekki að við höfum verið að skrifa upp á þetta, viljað þetta eða löggilt á nokkurn hátt. Það er auma málefnastaðan sem menn eru í þegar þeir fara að reyna slíkt. Þá er það að gerast sem Jón Sigurðsson, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins, varaði flokkinn við þegar hann sagði: Við verðum að moka flórinn hjá okkur. Við verðum að horfast í augu við okkur sjálf og við eigum ekki að reyna að kenna einhverjum öðrum um. En auðvitað reynir Framsókn eins og venjulega að kenna fyrri ríkisstjórn um einhvern veginn með skáldskap af þessu tagi, eins og hún ætlaði að fara að gera okkur ábyrg fyrir 110 ára leyndinni sem var óvart í frumvarpi sem var flutt af þeirra eigin menntamálaráðherra og þau samþykktu. (Gripið fram í.)

Niðurstaðan er sú að stjórnarflokkarnir báðir hafa ærið verk að vinna. Þeir eru kolflæktir í þetta með ráðherra sína, sveitarstjórnarmenn sína, trúnaðarmenn sína í flokkunum og þeir ættu auðvitað að biðja þjóðina afsökunar, kannski alveg sérstaklega Framsóknarflokkurinn, því við vitum auðvitað að Sjálfstæðisflokkurinn er svona þenkjandi. Það er ekki málsbót að þeir eru talsmenn græðgiskapítalisma, en það er þó að minnsta kosti það sem þeir meina og vilja. En að Framsókn skuli vera flæktari í þetta en eiginlega (Forseti hringir.) nokkur annar flokkur er yfirgengilegt. Það sem Framsókn á að gera, hv. þm. Hjálmar Bogi Hafliðason, (Forseti hringir.) er að biðja þjóðina afsökunar og bjóðast til að bjóða ekki fram í næstu kosningum, hvíla þjóðina á sér í fjögur ár. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)(Gripið fram í: … síðan 1983.)