145. löggjafarþing — 104. fundur,  29. apr. 2016.

rannsókn á aflandsfélögum Íslendinga og skattundanskotum.

711. mál
[13:46]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Maður óskar þess aldrei sérstaklega að koma næst á eftir hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni. Þetta verður eitthvað aðeins dauflegri framkoma hjá mér.

Ég vil byrja á að þakka þingflokki Vinstri grænna fyrir að leggja þessa tillögu fram. Mér finnst hún afar góð og mér finnst mjög mikilvægt að við rannsökum málið ofan í kjölinn. Ég held að það sé nauðsynlegt til þess að geta byggt upp traust aftur. Ég vænti þess að þegar tillagan fer í umsagnarferli muni margir hafa skoðanir á henni. Þess vegna er gott að við náum að taka hana fyrir hérna svo snemma eftir að hún kom fram til að við getum fengið umsagnir og rætt tillöguna ítarlega. Vonandi verður hún samþykkt í þinginu.

Það eru vonbrigði að ekki hafi fleiri stjórnarliðar ákveðið að taka til máls en einhverjir eru víst komnir aftarlega á mælendaskrána. Það stendur því til bóta. Ég upplifi að þetta sé mál málanna í dag. Ég hefði haldið að það yrði mikil eftirspurn eftir að koma í ræðustól og að fólki vildi segja hvað því finnst.

Það sem hefur komið núna upp á yfirborðið með aflandsfélögin er meinsemd. Það þarf að grípa til einhverra aðgerða. Við höfum vitað af þessu lengi. Þetta er ekkert nýtt en þegar komin eru nöfn og persónur á bak við félögin verður þetta allt miklu ljósara og opinberara og ég er mjög ánægð með að þessum skjölum hafi verið stolið eða lekið vegna þess að skattundanskot, peningaþvætti og annað slíkt sem á sér stað í þessum löndum og sumum aflandsfélögum, þótt mörg þeirra séu auðvitað saklaus, grefur undan velferðarsamfélaginu.

Við þurfum líka að fara að ræða í stóra samhenginu hvers vegna við erum yfir höfuð að borga skatta. Svo er önnur spurning: Af hverju ættum við að sjá eftir því? Af hverju ættu þeir sem hafa meira umleikis að sjá eftir fénu?

Þetta er siðferðisleg spurning sem við ættum kannski að ræða meira.

Evrópusambandið hyggst grípa til ýmissa aðgerða, m.a. gegn bönkum og skattaráðgjöfum sem hjálpa viðskiptavinum sínum að flytja fjármuni í skattaskjól á aflandssvæðum. Einhver hugmynd er um að koma upp sameiginlegum svörtum lista yfir skattaskjól. Það er mjög mikilvægt að þetta sé gert á alþjóðavísu því að vandamálið er þess háttar og það verður áhugavert að fylgjast með hvar EES-löndin koma inn í þetta og hvert svar okkar og afstaða verður í þessu máli. Það er einmitt þess vegna sem hæstv. fjármálaráðherra mætti vera hér og taka þátt í umræðunni.

Mér finnst líka þessi umræða gefa tilefni til að ræða um skattsvik almennt af því að þetta er bara hluti af einhverri stemningu og umburðarlyndi sem hefur ríkt á Íslandi, að skattsvik eða það að leyna eignarhaldi og notfæra sér aflandsfélög sé í rauninni ekkert svo alvarlegt. Það er auðvitað ekki þannig og ég bind miklar vonir við að þau mál sem hafa komið upp muni leiða eitthvað gott af sér. Þess vegna er mikilvægt að við á hinu háa Alþingi ræðum þetta. Þetta er í fyrsta skipti sem við höfum almennilegt tækifæri til þess.

Ég hef verið hissa á hvað ríki, jafnvel í Evrópusambandinu, hafa komist upp með gagnvart alþjóðasamfélaginu. Þótt ýmislegt hafi verið gert á undanförnum árum finnst mér seint í rassinn gripið og þetta þurfti til. Maður hugsar með sér að ef þetta hefði ekki gerst, þessum Panama-skjölum hefði ekki verið lekið, værum við kannski ekkert að ræða þetta. Vandamálið væri samt jafn aðkallandi og væri enn til staðar.

Mér finnst líka sá misskilningur í umræðunni, og það er sú afstaða ráðherra ríkisstjórnarinnar sem veldur áhyggjum, að stilla þessu upp þannig að ef greiddir hafi verið af þessu skattar og skyldur sé ekkert athugavert við það. Ég er ekki alveg sammála, það er ástæða fyrir því að fólk stofnar aflandsfélög. Ef fólk á pening og þarf að eiga viðskipti í útlöndum getur verið auðveldara að gera það í erlendum banka en íslenskum, en þá má allt eins fara til Noregs eða Danmerkur. Hæstv. fyrrverandi forsætisráðherra orðaði það einhvern veginn þannig að það sem hefði komið út úr þessu væri að komið væri í ljós að konan hans hefði greitt alla sína skatta og skyldur. Það sama segir hæstv. fjármálaráðherra. Skárra væri það ef ráðherrar í ríkisstjórn Íslands væru ekki með allt sitt á hreinu þannig að bara að þurfa að taka það fram finnst manni einkennilegt. Þetta snýst ekki um það, þetta snýst um að ákveða að eiga félög í skattaskjóli aflandsfélaga sem menn þurfa í rauninni ekki að upplýsa um frekar en menn vilja, enda kemur í ljós núna í Panama-skjölunum að þarna eru alls konar félög sem fólki hefði ekki dottið í hug að segja frá. Af hverju ekki? Ef þetta er allt svona rosalega saklaust, af hverju er þetta þá ekki í hagsmunaskráningu þingmanna, hagsmunaskráningu sveitarstjórnarmanna og þar fram eftir götunum? Af hverju liggur þetta ekki fyrir ef fólki finnst þetta raunverulega fullkomlega eðlilegt?

Þetta er ekki gott og eiginlega hálfglatað að við skulum eiga einhvers konar heimsmet í fjölda ráðherra sem tengjast beinlínis Panama-skjölunum. Þetta segir mikið um stemninguna sem var hér fram að hruni þar sem við færðum siðferðisviðmið allt of langt niður og margir fóru að telja að mjög óeðlilegir viðskiptahættir væru fullkomlega eðlilegir.

Við þurfum að taka stórt skref til baka. Þess vegna finnst mér mikilvægt að tillaga eins og þessi verði samþykkt á Alþingi og að farið verði í slíkar rannsóknir. Eins að skattrannsóknarstjóri fái það fjármagn sem hann þarf til að rannsaka þessi mál til hlítar. Ég sé ekki eftir peningunum sem fara í það.

Ég hafði vænst þess að heyra flutningsmenn í efnahags- og viðskiptanefnd taka meira til máls, stjórnarliða, vegna þess að þar hafa þessi mál verið rædd og haldnir opnir fundir. Ég veit að þar hefur farið fram upplýst ágætisumræða um þessi mál. Ég ætla sérstaklega að hlusta eftir því hvað nefndarmenn þar hafa um málið að segja. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hefur vissulega tekið til máls, situr reyndar ekki lengur í nefndinni en þekkir þetta mjög vel. Ég held að við verðum hér langt fram á kvöld því að svo erum við með aðra tillögu á eftir, tillögu Samfylkingarinnar sem er angi af sama meiði. Við höfum um nóg að ræða hér og ég hlakka til að hlusta á.