145. löggjafarþing — 104. fundur,  29. apr. 2016.

rannsókn á aflandsfélögum Íslendinga og skattundanskotum.

711. mál
[13:54]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Þar sem umræður um fundarstjórn forseta eru alltaf pínulítið takmarkaðar, kannski eðlilega, finnst mér rétt að nefna aðeins í sambandi við það sem við ræddum áðan undir liðnum um fundarstjórn forseta, þ.e. hvernig umræðunni væri háttað, að það er rétt að þrír þingmenn Sjálfstæðisflokksins eru komnir á mælendaskrá, sem er mjög gott, þar á meðal er hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson, sem er prýðilegt. Sömuleiðis vil ég halda því til haga að hann fór í andsvör áðan og tekur því þátt í umræðunni, sem er mikið gleðiefni. Hann nefndi í ræðu sinni um fundarstjórn forseta að minni hlutinn væri jafnvel farinn að tefja eigin mál og mig langar til að undirstrika að það stenst ekki. Það stenst hreinlega ekki hagsmuni minni hlutans.

Við mundum helst vilja fá atkvæðagreiðslu um þetta sem fyrst, þótt auðvitað þurfi umræða að eiga sér stað áður, en mig langar að vekja athygli á því að staðan á Alþingi er sú að þegar hv. þingmenn biðja um viðveru fjármála- og efnahagsráðherra er eiginlega eins og það geti ekki verið tilfellið að það sé raunveruleg og einlæg bón. Það er greinilegt að það lítur þannig út, alla vega fyrir sumum, að slíkar kvartanir og beiðnir séu ávallt til þess að tefja. Mér þykir það umhugsunarefni fyrir okkur öll og mér finnst það einkenni þess sem er að á Alþingi.

Í umræðuefni eins og þessu tel ég að það ætti að vera hvað skýrast hvernig Alþingi vinnur best. Það vinnur auðvitað best með því að umræðan hér eigi sér einnig stað af hálfu stjórnarliða en eins og ég segi sé ég fram á betri tíma í þeim efnum í umræðunni með hliðsjón af því að þingmenn Sjálfstæðisflokksins eru komnir á mælendaskrá, þar á meðal hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson. Ég er á því að maður geti verið ákveðinn og hneykslaður og jafnvel reiður en samt sem áður yfirvegaður á sama tíma, og vissulega sanngjarn. Þegar kemur að málum sem koma illa við aðra stjórnmálamenn þykir mér almennt mikilvægt og hreinlega best til þess að ræða málin að reyna að gefa fólki eins mikinn séns og mögulegt er, að láta fólk njóta vafans. Það er ekki aðeins vegna þess að ég tel það almennt betra upp á samskiptin að gera heldur líka vegna þess að ég tel að málefnaleg og yfirveguð umræða eigi að vera nóg til þess að rökstyðja og opinbera hið rétta í málinu og stöðunni. Ég vil halda því til haga. Ég vil endilega gefa ráðherrum þessarar ríkisstjórnar og öðru fólki allan þann séns sem mögulegt er og leyfa því að njóta vafans eins og mögulegt er.

Vandinn er sá að staðreyndir um málið gera það að verkum að þrátt fyrir að maður sé yfirvegaður og jafnvel þótt maður gefi mönnum allan þann séns sem mögulegt er þá er til staðar grundvallarvandamál í þeirri stöðu sem við erum í núna. Sú staða er að þegar kemur að þessu máli og því næsta hér er á eftir varða þau beinlínis hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra. Það er í eðli sínu slæmt, sama hversu mikinn séns maður gefur. Alveg sama þótt maður leyfi honum að njóta alls vafa breytir það því ekki að það hefur áhrif á hvernig almenningur getur búist við að þessi umræða fari fram. Það breytir óhjákvæmilega trúverðugleika þeirra stjórnmálamanna sem eiga einhvern hlut í einhverjum málum sem varða þau mál sem við erum að ræða. Þar á meðal er hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra. Þetta er afskaplega óheppilegt og í því felst ekki endilega einhver áfellisdómur, heldur ábending um það hvers er krafist af okkur núna sem stjórnmálamönnum.

Fyrir hrun 2008 töldum við Íslendingar okkur ægilega klár og sniðug í fjármálum og vorum oft með, að mínu mati, óttalega glannaskap í þeim efnum opinberlega. Sú gríma féll í hruninu 2008. Við erum enn að byggja upp orðstír okkar eftir það og vissulega er misskilningur í fjölmiðlum um það að hér hafi komið ný stjórnarskrá og allt það og mikið af því er ekki rétt, reyndar er merkilega mikið af því ekki rétt. Fólk sem hefur vit á fjármálum og veit hvernig þessir hlutir virka, hvernig bankakerfið virkar og er í þessum viðskiptum og starfsemi, hlýtur að átta sig á því nákvæmlega hvað gerðist vegna þess að það var á margan hátt fyrirsjáanlegt. Það var ábyrgðarleysi sem gerði það að verkum að hér varð hrun og að mínu mati, í það minnsta, er það ábyrgðarleysi að miklu leyti afleiðing ungs aldurs þjóðarinnar þegar kemur að fjármálum. Við erum ekki mjög sjóuð í þeim efnum miðað við aðrar reyndari þjóðir. Síðan kemur inn regnbogi mannlífsins þar sem meðal annars finnst spilling, hér eins og annars staðar, eins og væntanlega alls staðar í heiminum.

Punkturinn er sá að það hafa verið tímar á Íslandi þegar efnahagurinn hefur virst vera í góðum málum, það hefur verið lítið atvinnuleysi, lág verðbólga, ríkissjóður skilað afgangi og allt í góðu, reyndar mjög góðu, og samt var eitthvað að. Það var í grundvallaratriðum eitthvað að á bak við það hvernig þetta allt saman leit út. Þetta opinberaðist skýrt, til lengri tíma á skýran hátt, held ég, í hruninu 2008. Það er ekki lengur nóg fyrir okkur á hinu háa Alþingi eða í stjórnmálunum að nota efnahagsaðstæður eins og þær eru hverju sinni til að segja að hér sé allt í lagi vegna þess að það er hægt að ná góðum efnahagslegum árangri á röngum forsendum, á forsendum sem geta fallið um sjálfar sig þegar á reynir, eins og gerðist að mínu mati 2008.

Krafan núna frá almenningi á stjórnmálamenn held ég að snúist fyrst og fremst um traust. Þá liggur á að við sýnum það traust, ekki einungis þegar við teljum okkur ekki hafa brotið nein lög heldur þurfum við að sýna það í verki með því að bera virðingu fyrir kröfunni. Það er afskaplega erfitt þegar hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra mætir ekki einu sinni hingað til að ræða um þetta mál. Og ég vil benda á að ég er ekki þeirrar skoðunar að ráðherrar eigi alltaf að vera til staðar þegar þingið er að ræða mál sem varða málaflokka þeirra, vegna þess að það er eftir allt saman þingið sem á að taka ákvörðun. Vandinn er sá að þetta varðar hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra beint og þann trúnaðarbrest sem varð í samfélaginu. Um það snýst þessi tillaga og þess vegna finnst mér mikilvægt að hann sé hér.

Það er til það viðhorf að eðlilegt sé að geyma eignir í skattaskjólum og sjálfsagt hefur hver sína skoðun á því. Mér finnst það sjálfum ekki eðlilegt og í allra skásta falli óheppilegt. Mér finnst það sérlega óheppilegt þegar hæstv. ráðherra skattamála talar eins og það sé eðlilegt, talar eins og að þær áhyggjur fólks af því hvernig mál virka séu aðeins misskilningur. Málið er nefnilega það að eins og þetta blasir við fólki eru þarna eignir sem eru settar inn í hin ýmsu skjól til þess að fela þær, kannski ekki endilega til að skjóta undan skatti en af einhverjum ástæðum. Af hvaða ástæðum? Fólk veltir því fyrir sér. Það fer að velta fyrir sér hvort það séu einhverjar sniðugar flækjur sem menn fara í. Hvers vegna fara menn í það að búa til félög af handahófi hér og þar til að sýsla með eignir? Það er spurning sem sjálfsagt eru til mjög mörg mismunandi svör við, en það að almenningur þurfi sífellt að velta því fyrir sér í sambandi við mál ráðherra skattamála þýðir að almenningur getur ekki leyft sér að treysta okkur hér jafn vel og almenningur á að geta gert. Ég vil leggja áherslu á að ég leyfi hæstv. ráðherra að njóta alls þess vafa sem ég mögulega get, en þetta eru áhyggjur sem okkur ber að taka alvarlega, ekki vegna þess að það er lögbundin skylda okkar heldur vegna þess að það er hið rétta sem maður gerir í stjórnmálum. Það er einfaldlega hið rétta.

Þess vegna leiðist mér hvernig menn fara oft út í það hvað hafi verið löglegt og ekki löglegt.

Hvað varðar CFC-reglurnar vil ég nefna eitt sem ég rakst á við að leita að þeim stjórnarfrumvörpum síðustu hæstv. ríkisstjórnar, sem fjallaði um þau mál og setti í lög og það var gert af þáverandi hæstv. ráðherra Katrínu Júlíusdóttur í máli 629 á 141. þingi. Síðasta ríkisstjórn kom því á, ekki þessi. Þar áður hafði Sjálfstæðisflokkurinn verið við völd, í ríkisstjórn, og í svari á þskj. 1031 á 135. þingi komu fram þau viðbrögð við fyrirspurn, reyndar annars sjálfstæðismanns, að ekki væri sérstök nauðsyn til að innleiða CFC-reglur í íslenskan skattarétt í ljósi þess hversu lágt tekjuskattshlutfall fyrirtækja væri hér á landi á þeim tíma.

Ég hef ekki mikinn tíma til að rekja þetta en það sem ég er að reyna að koma að er að það skiptir máli að við sýnum trúverðugleika og sá trúverðugleiki getur ekki aðeins verið bundinn í lögum, hann þarf líka að vera bundinn í því hvernig við ætlum að nálgast (Forseti hringir.) þær lögmætu og eðlilegu áhyggjur almennings af því hvernig málin eru í pottinn búin hjá ríkisstjórnarmeðlimum.