145. löggjafarþing — 104. fundur,  29. apr. 2016.

rannsókn á aflandsfélögum Íslendinga og skattundanskotum.

711. mál
[14:05]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna.

Hv. þingmaður nefnir, sem ég held að sé alveg hárrétt hjá honum, að það skiptir máli að byggja upp traust. Grundvallaratriðið í því er að við leggjum hlutina fram á réttan hátt og snúum ekki út úr eða erum með hálfsannleik eða annað slíkt.

Mér finnst það vera frétt ef þessi þingsályktunartillaga gengur út á hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra. Ég hélt að þetta væri miklu stærra mál en svo. Hv. þingmaður vísaði einnig í þingsvar sem kom í tíð ríkisstjórnar sem Sjálfstæðisflokkurinn átti aðild að. Þá var vísað í að ekki væri hagur í því fyrir íslensk félög að fara annað vegna þess að skatthlutföllin væru svo lág. Má vera að það hafi verið rétt. Ég fer betur yfir það í minni ræðu. Hv. þingmaður talar um að þetta sé fyrst og fremst gert til að fela, þ.e. að fara í aflandsfélög. Það má vera rétt. Ég fer betur yfir þau mál í ræðu minni á eftir. En ég held að við viljum ekki sjá hagkerfi eða efnahagslíf þar sem menn gera slíkt, að fela hluti.

Ég vil því spyrja hv. þingmann vegna þess að Píratar eru í meiri hlutanum í Reykjavíkurborg. Undir forustu Pírata og þess meiri hluta sem er núna fór Orkuveitan í að stofna aflandsfélag. Mér finnst skipta máli að menn tali þá bara hreint um það af hverju menn fóru í það ef þetta er bara gert til að fela.

Hv. þingmaður þekkir þessi mál vel. Ég þarf ekki að rifja upp þá sögu. Þetta hefur verið mikið í umræðunni. Ég vil spyrja: Var það þannig að Píratar tækju þátt í því, ásamt Vinstri grænum og Samfylkingunni, að fela eignir eða annað slíkt með því að stofna félag á vegum Orkuveitunnar í aflandsfélagi?