145. löggjafarþing — 104. fundur,  29. apr. 2016.

rannsókn á aflandsfélögum Íslendinga og skattundanskotum.

711. mál
[14:34]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Aflandsfélög og skattaskjól eru í raun og veru illgresi í þeim matjurtagarði sem samfélag okkar er. Þau grafa undan samábyrgð og samkennd, þau veita undankomuleið frá heilbrigðum leikreglum, skekkja samkeppnisskilyrðin, raska undirstöðum þeirrar samfélagssáttar sem þarf að vera til staðar og er undirstaða þess að hægt sé að reka samfélag á forsendum samneyslu og samábyrgðar.

Þetta finnst mér rétt að segja strax í upphafi míns máls, ekki síst í ljósi þeirra orðaskipta sem urðu milli hv. þingmanna Guðlaugs Þórs Þórðarsonar og Helga Hrafns Gunnarssonar rétt áðan þar sem hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson reyndi, og teygði sig mjög langt í því, að sýna fram á að starfsemi aflandsfélaga og skattaskjóla gæti verið fullkomlega eðlileg svo framarlega sem hún væri lögleg og fæli ekki í sér skattundanskot. Þeir sem til þekkja og hafa gerst fjallað um þessi mál að undanförnu hafa hins vegar sýnt fram á í máli sínu og rökræðum að starfsemi aflandsfélaga og skattaskjóla felur þvert á móti í sér samfélagsleg óheilindi og grefur undan samneyslunni og hinni samfélagslegu samábyrgð. Áhrifin af starfsemi aflandsfélaga og skattaskjóla eru þess vegna ekki bara umtalsverð heldur mikil og ekki bara á samkeppnisumhverfi heldur á skattkerfið sjálft og fjármálastöðugleika.

Nú ræðum við þingsályktunartillögu sem hv. þm. Svandís Svavarsdóttir er fyrsti flutningsmaður að um að láta fara fram rannsókn á fjölda og starfsemi félaga sem tengjast íslenskum aðilum, einstaklingum og lögaðilum, og eru í skattaskjólum sem skilgreind hafa verið af OECD og íslenskum stjórnvöldum. Í tillögunni er gert ráð fyrir því að í þessu skyni skipi forseti Alþingis rannsóknarnefnd sem skili Alþingi skýrslu í september 2016, þ.e. næsta haust, um þá íslensku aðila sem hún hefur orðið áskynja um en lokaskýrslu fyrir árslok um mat á umfangi aflandsstarfseminnar og áhrifum hennar á íslenskt samfélag.

Tillagan felur jafnframt í sér að fela fjármála- og efnahagsráðherra að stofna sérstakan rannsóknarhóp sem fari yfir og meti skattundanskot og aðra ólögmæta starfsemi, svo sem peningaþvætti, sem kunni að hafa átt sér stað með aflandsfélögum og byggist á upplýsingum og niðurstöðum rannsóknarnefndarinnar.

Þessi tillaga er fyllilega tímabær því að það er þegar komið í ljós að mikil brögð hafa verið að því að íslenskir ríkisborgarar hafa stofnað slík félög og hlutfall þeirra hér á landi er langt umfram það sem þekkist í nágrannalöndum okkar sé miðað við mannfjölda og þarf að seilast ansi langt, ef það er yfirleitt hægt, til að finna eitthvað sambærilegt í löndunum umhverfis okkur.

Það er líka umhugsunarefni að upplýsingar sem hafa komið fram í Panama-skjölunum, eins og bent er á í greinargerð, tengjast ekki nema einni íslenskri fjármálastofnun og einu lögfræðifyrirtæki, Mossack Fonseca, þannig að það er næsta víst að aflandsfélög í eigu Íslendinga hljóta að vera langtum fleiri en komið hefur fram í Panama-lekanum. Þetta hefur verið mun umfangsmeira þegar fjármálafyrirtæki voru að stofna félög af þessum toga þegar mest gekk á og aflandsfélögin spruttu upp eins og sveppir á sumarvelli svo ég vitni í gullvæga setningu hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar fyrr í dag.

Aflandsfélög og skattaskjól auka auðlegð fjármagnseigenda, segir í greinargerð með tillögunni, sem með þessu móti skjóta sér undan sköttum sem lagðir eru á í heimalandi þeirra og raka þannig til sín fjármagni sem annars færi í skattskil í heimalandinu. Heimalandið neyðist þá til þess að annaðhvort draga úr samneyslu á borð við heilbrigðisþjónustu og skólastarf eða þyngja álögurnar á aðra skattgreiðendur eins og rakið er í greinargerð.

Þar er líka ágætlega rakið, sem fram hefur komið, að höfuðeinkenni skattaskjóla er skattleysi eða lágir skattar, lítilfjörleg löggjöf um banka og fjármálastarfsemi og leynd yfir uppruna þess fjár sem þar er geymt, með öðrum orðum kjörlendi fyrir peningaþvætti og illa fengið fé. Orðið skálkaskjól fær eiginlega alveg ferska og nýja merkingu þegar maður hugsar um starfsemi þessara félaga því að þau eru til þess fallin að viðhalda og auka misskiptingu auðs í heiminum og í þeim er varðveittur ágóði af ýmiss konar ólögmætri starfsemi sem bitnar á almenningi eins og í tengslum við vopna- og eiturlyfjasölu, vændi, mansal o.fl. Það er svona sem skattaskjólin grafa undan velferð og velgengni samfélaga sem sjá þar með á eftir fé sem hverfur inn í það sem í greinargerð er kallað svarthol.

Okkur ætti ekki að blandast neinn hugur um að starfsemi af þessu tagi felur í sér samfélagsleg óheilindi, óheilindi sem er ekki hægt að líða. Nú hefur komið í ljós að starfsemi af þessu tagi hefur teygt anga sína um allt íslenskt samfélag og mun lengra en okkur óraði fyrir, inn í stjórnmálaflokkana, inn í ríkisstjórn landsins þar sem þrír ráðherrar hafa meðal annars tengst slíkri starfsemi.

Forsætisráðherrann fyrrverandi sat sjálfur að samningum um uppgjör við kröfuhafa og gerði áætlanir um afnám gjaldeyrishafta en var á sama tíma kröfuhafi og eigandi aflandsfjár. Hann neyddist til að segja af sér en eftir sitja tveir ráðherrar á stóli, þar á meðal fjármálaráðherra landsins, æðsta stjórnvald skattsýslunnar á Íslandi, og talar eins og aflandsstarfsemi sé eðlilegur liður í viðskiptum.

Það er auðvelt að tala yfir þeim sem hafa ekkert val, yfir íslenskum almenningi sem er fastur í viðjum krónunnar en fær enn eina ferðina að horfa upp á höfðingjana haga sér, höfðingjana sem muna ekki einu sinni hvar þeir lögðu frá sér 50 milljónirnar, hvort þær urðu eftir í Lúxemborg eða á Seychelles-eyjum eins og hæstv. fjármálaráðherra sem streitist við að sitja og þráast við að segja af sér.

Nú þegar í ljós er komið hversu djúpt þessi starfsemi hefur teygt sig inn í íslenskt stjórnkerfi verður ekki undan því vikist að uppræta þessi félög og vinna bug á þeim óheilindum sem starfræksla þeirra og viðgangur felur í sér. Þess vegna fagna ég ummælum hv. þm. Frosta Sigurjónssonar sem fyrr í dag ræddi um mikilvægi þess að skera upp herör og gera einbeitta atrennu að því að afla upplýsinga um fjölda þessara félaga til að komast að haldbærri vitneskju um hversu stóran hluta íslenska hagkerfisins er að finna í þessum aflandsfélögum.

Við Íslendingar höfum á tyllidögum státað okkur af ríkri lýðræðishefð. Fram að hruni var oft talað um stéttlaust samfélag. Sú mynd hefur mikið bjagast að undanförnu, svo mikið að segja má að samfélagssáttin sé í húfi. Það er mikilvægt að hreinsa til í garðinum, uppræta arfann og illgresið sem árum saman hefur fengið að sjúga næringu frá rótarkerfi matjurtanna sem gróðursettar voru samfélaginu til góðs. Þar er ég að tala um samneysluna, velferðarkerfið, heilbrigðismálin, skólana. Illgresið er það hugarfar sem liggur að baki starfsemi aflandsfélaga og skattaskjóla sem felur í sér ábyrgðarleysi og leiðir af sér spillingu og ójöfnuð.

Þessi uppræting þarf að eiga sér stað á mörgum flötum samtímis. Í stjórnmálunum verða menn að axla ábyrgð og ganga á undan með góðu fordæmi. (Forseti hringir.) Stjórnvöld verða auk þess að gera gangskör að því að uppræta undanskot og leynimakk með fjármuni og fyrsta skrefið í þá átt er rannsókn á umfangi og eðli slíkra umsvifa. Að því miðar þessi tillaga og því styð ég hana heils hugar.