145. löggjafarþing — 104. fundur,  29. apr. 2016.

rannsókn á aflandsfélögum Íslendinga og skattundanskotum.

711. mál
[14:44]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður var að ýja að því að ég væri einhver sérstakur stuðningsmaður aflandsfélaga og sagði að ég hefði talað með þeim hætti í ræðunni. Ég veit ekki hvað hv. þingmaður er að vísa í. Kannski er hv. þingmaður að vísa í að ég nefndi Samfylkinguna sérstaklega. Annars vegar vísaði ég í gest Samfylkingarinnar sem kom hingað, prófessor við London School of Economics sem sagði orðrétt, með leyfi forseta:

„Hann segir miklu máli skipta að fara varlega og skilja á milli þeirra fyrirtækja sem stofnuð eru í þessum ríkjum í heiðarlegum tilgangi annars vegar og hins vegar í þeim tilgangi að svíkja undan skatti eða þvætta peninga.“

Ég vitnaði í þessi orð. Það er ágætt að vita hvort hv. þingmaður sé ósammála mati prófessorsins sem Samfylkingin kallaði til.

Hins vegar vísaði ég í ákvarðanir Samfylkingarinnar um að stofna aflandsfélag fyrir tryggingar sínar í Orkuveitunni. Vinstri grænir, Samfylkingin og Píratar ákváðu að gera það í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur.

Hv. þingmaður talaði um að þetta væru samfélagsleg óheilindi, það ætti að uppræta illgresið, það að vera í viðskiptum við aflandsfélög sýndi hugarfar spillingar og guð má vita hvað. Ég spyr þá hv. þingmann: Hefur hún eitthvað beitt sér á vettvangi Samfylkingarinnar til þess annaðhvort að mótmæla þessum prófessor, nú eða mótmæla því sem borgarfulltrúarnir gera, eða þá kannski bara að upplýsa um þessi erlendu félög með nafninu Fjölnir og Fjalar sem virðast leigja Samfylkingunni húsnæði undir markaðsleigu? Síðan er áhugavert og við förum kannski í það í seinna andsvarinu að fara yfir síðasta kjörtímabil og hvernig Samfylkingin tók t.d. á hv. þm. Lilju Mósesdóttur. (LRM: … yfirheyrsla.)