145. löggjafarþing — 104. fundur,  29. apr. 2016.

rannsókn á aflandsfélögum Íslendinga og skattundanskotum.

711. mál
[15:10]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Sem betur fer eru viðhorfin að breytast. Það er mjög af hinu góða. Ég er mjög ánægð með málflutning hv. þingmanns í þessu máli og mættu margir taka hann sér til fyrirmyndar því að akkúrat svona þurfum við að hugsa og tala, sama hvar við stöndum í samfélaginu, hvort sem við erum í atvinnulífinu, viðskiptalífinu eða hvar, venjulegt launafólk, stjórnvöld og allir ráðandi aðilar. Menn þurfa að taka höndum saman og vinna gegn þeirri óværu að sumir reyni stöðugt að skjóta sér undan samfélagslegri ábyrgð og láti þungann af uppbyggingu í samfélaginu hvíla á herðum allt of fárra. Misskipting á auði í heiminum bitnar gífurlega á fátækustu þjóðunum og framgangi þeirra. Það er verið að soga út úr efnahagskerfum þeirra mikla fjármuni og koma fyrir í skattaskjólum þar sem þeir sem eiga mesta auðinn geta látið hann vaxa mjög hratt en nýta hann ekki til samfélagslegrar uppbyggingar. Það er talið að skattaskjól kosti fátæku löndin í það minnsta 170 milljarða bandaríkjadala í töpuðum skatttekjum á hverju ári. Fátæku löndin tapa sem sagt 170 milljörðum bandaríkjadala í skatttekjum á hverju ári. Þetta er óhuggulegt að heyra slíkar tölur því að ef við mundum öll standa okkar plikt og skila okkar til samfélagsins gætu allir jarðarbúar haft það miklu betra. En ég er ánægð að heyra málflutning hv. þingmanns. Ég vona (Forseti hringir.) að fleiri komi á eftir honum og tali á sömu nótum og styðji tillöguna, eins og ég skora á allan þingheim að gera.