145. löggjafarþing — 104. fundur,  29. apr. 2016.

rannsókn á aflandsfélögum Íslendinga og skattundanskotum.

711. mál
[15:25]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Samstarf er kannski ekki óhjákvæmilegt en eflaust væri það skynsamlegt. Það gæti líka flýtt fyrir þar sem það léttir vinnuna. Ég er talskona þess að fólk starfi saman og leiti lausna saman. Ég held að þetta sé eitthvað sem gæti komið og kemur líklega fram í vinnu nefndarinnar þegar málið fer til hennar. Mér skilst að birta eigi þau gögn sem þegar hefur verið upplýst um, þ.e. upplýsingar úr Panama-lekanum, á heimasíðu félagsins sem að því stendur. Við þurfum samt að muna að þetta er aðeins frá Mossack Fonseca. Það eru auðvitað fleiri aflandsfélög til víðar og fyrirtæki sem hafa sérhæft sig í að aðstoða einstaklinga og fyrirtæki við að geyma fé sitt og eignir þar. Ég held klárlega að það sé gott að sem flestir geti komið að þessu til að miðla upplýsingum, en það má heldur ekki verða það stórt að ekki sé hægt að ná utan um það, að fólk náist ekki saman til að vinna það, heldur sé það meira í formi þess að kalla fólk á fund og fá gögn og allt það. Svo þegar við erum komin að tiltekinni niðurstöðu eða leið geri ég ráð fyrir að skattrannsóknarstjóri taki við málinu, sé um að ræða einhver mál, við skulum halda því til haga. Ég geri þó ráð fyrir því miðað við hvernig þetta er til komið og eins og ég skil skattaskjól. Eins og ég sagði áðan eru þau ekki til komin af því bara, það er einhvers konar hagræði af þeim þótt það sé ekki beinlínis ólöglegt. Við vitum heldur ekki hvort allir hlutir (Forseti hringir.) hafi verið gefnir upp og skattrannsóknarstjóri hefur sagt að hún geti ekki sannreynt það. Ég vona því að þessi vinna verði til þess.