145. löggjafarþing — 104. fundur,  29. apr. 2016.

rannsókn á aflandsfélögum Íslendinga og skattundanskotum.

711. mál
[15:28]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Ég þakka hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur svörin. Ég taldi mig vita svarið fyrir víst og hv. þingmaður útskýrði það mjög vel. Ég held að það verði alltaf gagnkvæma vinna. Það kemur skýrt fram í leið tvö að rannsóknarhópurinn, sem hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra mun skipa eða verður falið að skipa samkvæmt tillögunni, mun síðan miðla eða eiga samstarf við embætti skattyfirvalda. Ég sé alveg samhengi á milli markmiða og leiða og hlutverka beggja hópanna. Ég velti áfram fyrir mér tæknilegu atriðum og meiningunni með því að rannsóknarnefndin skili skýrslu, hér er dagsetningin september 2016, en mér hugnast mjög vel að fá slíka áfangaskýrslu til að meta starf nefndarinnar. Ég held að það hafi verið vömm í starfi fyrri nefnda hvað leið langur tími og Alþingi var ekki upplýst í áföngum og ég held því að þetta sé mjög gott skref, hvort sem það var einhver önnur eða sérstök ástæða fyrir því gagnvart þessu starfi. Svo er hér greinargerð, reyndar ekki mjög ítarleg, eða hún er stutt og hnitmiðuð og um það sem þó hefur verið gert á þessu sviði, alþjóðlega og svo kannski minna hérlendis. Ég nefndi áðan CFC-reglur og upplýsingaskiptasamninga og fleira í þeim dúr. Það hafa komið tillögur frá báðum embættum, ríkisskattstjóra og (Forseti hringir.) skattrannsóknarstjóra, um hvort það verði þá hlutverk þessa rannsóknarhóps (Forseti hringir.) að taka upp þær ábendingar og gera tillögur að úrbótum og lögum, hvort það sé meiningin með þessu.