145. löggjafarþing — 104. fundur,  29. apr. 2016.

rannsókn á aflandsfélögum Íslendinga og skattundanskotum.

711. mál
[15:42]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður hefði að mínu mati átt að nota tilefnið og tækifærið til að upplýsa um þær leiðréttingar sem Morgunblaðinu hafa verið sendar en hafa ekki verið birtar er varðar eignarhaldið á Fjalari og Fjölni, félaga sem virðast hafa fengið fé frá fyrrverandi flokksstofnunum Alþýðubandalagsins gamla og Alþýðuflokksins. Mér þykir heldur aumt hjá formanni Samfylkingarinnar, hv. þingmanni, að ætla að draga svo þykk landamæri við þau félög sem hann gerir hér.

Hitt er annað mál vegna þess að hér er vísað til afstöðu skattyfirvalda um tilgang svokallaðra aflandsfélaga, þá vek ég athygli á skýrslu skattsvikanefndar, einni af mörgum skýrslum margra skattsvikanefnda sem hafa verið gerðar undanfarin ár, í þessu tilviki frá 2003, 2004, en í henni sátu nákvæmlega skattrannsóknarstjóri, ríkisskattstjóri og tollstjóri á sínum tíma. Ríkisskattstjóri var á þeim tíma Indriði H. Þorláksson, sem hefur verið sérlegur ráðgjafi t.d. síðustu ríkisstjórnar í skattamálum, en þeir skiluðu einmitt skýrslu á þeim árum þar sem var sérstaklega fjallað um skattaparadísir og skattavildarreglur þar sem kemur sérstaklega fram, með leyfi forseta, ef ég vitna í skýrsluna:

„Skattaparadísir og skattavildarreglur geta átt rétt á sér …“.

Það liggur því fyrir, að minnsta kosti er afstaða skattyfirvalda að einhverju leyti sú að það geti átt rétt á sér, eða að minnsta kosti félög í þessum löndum.

Hv. þingmaður svaraði ekki spurningu minni sem var nú kannski kjarni andsvars míns. Með hvaða hætti sér hv. þingmaður það fyrir sér að hópur manna fari í þá viðamiklu vinnu sem felst í því að lista upp öll þau félög sem Íslendingar (Forseti hringir.) mögulega eiga aðild að í hinum svokölluðum aflöndum?