145. löggjafarþing — 104. fundur,  29. apr. 2016.

rannsókn á aflandsfélögum Íslendinga og skattundanskotum.

711. mál
[15:45]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég geri mér alveg fullkomlega grein fyrir því, til að svara spurningu hv. þingmanns sem hún lauk fyrirspurn sinni hér á, að ekki er einfalt að setja á fót rannsóknarnefnd af þessum toga. Ég legg til að í nefndinni verði farið mjög vandlega yfir það hvaða rannsóknarheimildir ætti að búa til og möguleika til þess að komast að sannleikanum. Eins og ég sagði í máli mínu áðan vitum við það eitt að ein lögmannsstofa sem vann fyrir einn íslenskan banka hefur skilað 600 Íslendingum í skattaskjól, en við vitum að allir þrír stóru bankarnir fyrir hrun buðu upp á þessa þjónustu og við vitum ekkert um umfangið eða þær lausnir sem þar var boðið upp á. Óhjákvæmilegt er að grafast fyrir um þetta til fullnustu. Þess vegna þarf að reyna að finna færar leiðir til þess. Ég nefndi áðan hvort ekki væri hægt að gera kröfu á slitabú hinna föllnu banka að opna bækur sínar að þessu leyti.

Varðandi síðan hitt sem mér finnst satt að segja fyrir neðan virðingu hv. þingmanns að bera hér inn róg, því að það er ekki neitt annað en rógur að halda því fram að eitthvað sé óhreint hvað varðar fjárhagsleg samskipti Samfylkingarinnar við leigusala hennar. Það er vissulega þannig að peningar sem eignarhaldsfélag Alþýðuhússins og Sigfúsarsjóður eiga hafa orðið til í gegnum áratugi fyrir vinnu íslensks erfiðisvinnufólks sem hefur lagt til fé til að byggja hús yfir starfsemina. Þau félög keyptu húsnæði sem Samfylkingin leigði. Frá og með gildistöku laga um fjármál stjórnmálaflokka árið 2006 var ljóst að ekki var hægt annað en að borga markaðsleigu fyrir húsnæðið jafnvel þótt um skylda aðila væri að ræða. Þannig hefur öllu reikningshaldi Samfylkingarinnar verið hagað frá gildistöku þeirra laga. Ríkisendurskoðun hefur haft með það eftirlit að gera og verið fullkunnugt um tengsl aðilanna við Samfylkinguna og engar athugasemdir gert við þessi skil og reikningsskil Samfylkingarinnar. Rógur af þessum toga, að reyna að kasta rýrð á eignarhald og dylgja þar með um að eitthvað óhreint mjöl sé í pokahorninu, Samfylkingin njóti með einhverjum hætti fjárhagslegs ávinnings af þessum félögum eða slíkt er óhreint, ósiðlegt og ekki hv. þingmanni sæmandi. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)