145. löggjafarþing — 104. fundur,  29. apr. 2016.

rannsókn á aflandsfélögum Íslendinga og skattundanskotum.

711. mál
[15:57]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég endurtek spurningu mína og óska bara eftir svari, já eða nei, en bæti við: Þegar tillagan verður búin að fá þinglega meðferð í nefnd, menn búnir að fara í gegnum hana, lagfæra hana ef til vill eða bara setja hana fram óbreytta, þá hefur það komið fram hjá einum þingmanni stjórnarliðsins, hv. þm. Frosta Sigurjónssyni, að hann styðji tillöguna og er mjög hlynntur henni, alveg eins og ég tel að komið hafi fram í ræðu hv. þm. Elínar Hirst, sem ég fagna mjög. Mér finnst það alltaf gott þegar þingmenn eru ekki svo bundnir flokkum sínum eða stjórnarsamstarfi að menn láti af sjálfstæðum skoðunum. Mér finnst að hv. þingmaður hafi hér verið að lýsa stuðningi við þetta. Þess vegna endurtek ég spurningu mína: Eftir þinglega meðferð í nefnd, mundi hv. þingmaður vilja standa með okkur að því að samþykkja þingsályktunartillögu um að setja á fót rannsóknarnefnd miðað við lög um rannsóknarnefndir og allt það í framhaldi af því áður en þinginu lýkur?