145. löggjafarþing — 104. fundur,  29. apr. 2016.

rannsókn á aflandsfélögum Íslendinga og skattundanskotum.

711. mál
[15:58]
Horfa

Elín Hirst (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég starfa hér á þingi samkvæmt minni eigin sannfæringu og ég get náttúrlega ekki skrifað upp á óútfylltan tékka eins og hv. þingmaður Kristján L. Möller hlýtur að skilja. Ég styð það að þessi mál komi fram. En auðvitað vil ég hafa hönd í bagga með hvernig þau verða svo endanlega útfærð, þess vegna er ég hér í vinnu. Mér finnst aðalatriðið að ég segi að mér finnist gott að menn komi hér fram með hugmyndir um hvernig fara skuli í þessi mál til þess að reyna að uppræta þetta mein, sem ég kalla svo, án þess að ég þurfi í þessum ræðustól endilega hér og nú að segja af eða á um hvort ég muni styðja nákvæmlega það sem verður svo niðurstaða þingsins. Ég vona það svo innilega vegna þess að það veitir ekki af.