145. löggjafarþing — 104. fundur,  29. apr. 2016.

rannsókn á aflandsfélögum Íslendinga og skattundanskotum.

711. mál
[16:03]
Horfa

Flm. (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Forseti. Það er auðvitað mikilvægt að geta átt hér í efnislegu samtali um þessi mál. Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis voru líka ýmsar upplýsingar um eigendur og starfsemi ýmiss konar fjármálafyrirtækja o.s.frv. án þess að um væri að ræða einhvers konar sakamannalista. Hugsunin þar var, rétt eins og hún er hér, fyrst og fremst það leiðarljós að mikilvægt sé fyrir almenning að þarna ríki gagnsæi. Mér finnst afar mikilvægt að við höldum því leiðarljósi til haga. Við erum ekki að tala um einhvers konar lista yfir seka einstaklinga heldur lista yfir þá sem eiga eða hafa átt félög í skattaskjólum.

Hv. þingmaður er upptekin af því að tala skýrt og að við séum klár á því um hvað við erum að ræða hér og mér finnst líka afar mikilvægt að við gerum greinarmun á því annars vegar að eiga peninga erlendis og hins vegar að eiga peninga í skattaskjólum. Grundvöllur þessarar tillögu er að víglínan er þá þar og það er sama víglína og OECD-ríkin draga.

Hv. þingmaður er mjög upptekin af þessu með lögmæti og ekki lögmæti, að ef starfsemi sé lögmæt séum við í lagi. Þá spyr ég: Hvað segir hv. þingmaður um þá fullyrðingu fjölmargra rannsakenda og innlendra og erlendra aðila að skattaskjól séu vettvangur þar sem ágóði af hvers kyns glæpastarfsemi og öðru illa fengnu fé sé blandað í leynisjóði stórfyrirtækja og auðkýfinga og að þar með séum við að skapa kjörlendi fyrir hvítþvott slíkra fjármuna? Það er ástæðan fyrir því að skattaskjól eru ámælisverð eins og þau leggja sig.