145. löggjafarþing — 104. fundur,  29. apr. 2016.

rannsókn á aflandsfélögum Íslendinga og skattundanskotum.

711. mál
[16:17]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég vil byrja á að segja að ég tek heils hugar undir lokaorð hv. þingmanns um þá von að tillagan fái skjóta og góða meðferð í nefnd. Mig langar að bæta því við að þetta er eitt af þeim málum sem ég tel afar brýnt að við ljúkum fyrir lok þessa þings. Þetta er eitt af málunum sem í mínum huga eru mikilvægu málin sem þarf að ljúka.

Mér fannst áhugavert það sem kom fram í máli hv. þm. Kristjáns L. Möllers sem fagnaði, og ég tel réttilega, því að nokkrir hv. þingmenn úr stjórnarflokkunum hafa tekið til máls og sumir lýst yfir stuðningi við tillöguna. Ég vil meira að segja leyfa mér að segja að ég fagna því hreinlega þegar þingmenn stjórnarmeirihlutans taka þátt í umræðum um tillögur frá okkur þingmönnum minni hlutans jafnvel þótt þeir séu ósammála þeim því að ég held að umræðan skipti líka máli.

Hv. þingmaður nefndi það sem hafði farið fram hjá mér í fréttum að ríkisstjórn hafi skipað nefnd með fulltrúum ráðuneyta um þetta mál. Þess vegna langar mig að spyrja hv. þingmann: Hvernig les hv. þingmaður í fjarveru og þögn hæstvirtra ráðherra ríkisstjórnarinnar í þessu máli? Er honum eins innan brjósts og mér sem líður eins og þeir séu hreinlega á flótta undan umræðunni og virðast ekki, ég veit ekki, þora að koma hingað og ræða þetta mjög svo mikilvæga mál í þessum þingsal?