145. löggjafarþing — 104. fundur,  29. apr. 2016.

rannsókn á aflandsfélögum Íslendinga og skattundanskotum.

711. mál
[16:20]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur fyrir andsvarið. Já, og við eigum það auðvitað sameiginlegt þetta með þinglega meðferð. Ég vil trúa því að hv. þm. Ögmundur Jónasson, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, sem ég geri ráð fyrir að fái þessa tillögu í hendur, bretti upp ermar og taki marga fundi nefndarinnar í að fara í gegnum þetta og reyni að ná því úr nefnd með samstöðu. Ég tek líka eftir og sem kom fram hjá hv. þingmanni að komnir eru tveir þingmenn Framsóknarflokksins sem hafa lýst yfir stuðningi og að minnsta kosti einn þingmaður Sjálfstæðisflokksins hefur lýst yfir stuðningi líka. Ég tók eftir að hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson ræddi lítið um þetta mál heldur eyddi hann megninu af tíma sínum í að ræða um einhverjar hugmyndir Orkuveitu Reykjavíkur um að stofna aflandsfélag en heyrði svo hvernig hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson bar það til baka og borgarstjórnarmeirihlutinn er nú eitthvað að draga það til baka. Vonandi er þetta góðs viti.

Síðan ræddi hv. þingmaður um það sem ég sá í fréttum rétt áður en ég kom upp í ræðustól að ríkisstjórnin hefði samþykkt í morgun að stofna starfshóp og í honum ættu að vera fulltrúar forsætisráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis, auk fulltrúa frá ríkisskattstjóra, skattrannsóknarstjóra og tollstjóra. Ég sagði áðan að ég hefði talið betra að fleiri kæmu að því.

Það sem mér finnst gott við þessa tillögu er að skila skal tillögum fyrir 30. júní í ár. Þá get ég sagt með fullri vissu að þessi tillaga og umræðan hér í dag hefur nú þegar borið mikinn árangur þó svo gera mætti betur hvað það varðar.

En ég vil svo segja, virðulegi forseti, að í hinu flókna skattkerfi þá finnst mér ýmislegt taka of langan tíma. Það kom líka fram í fréttum ekki alls fyrir löngu að einhverjir svikahrappar hefðu svikið út úr ríkissjóði 280 milljónir út af húsum sem ekki voru byggð. Það var árið 2010. En það mál er að koma til dómstóla nú fyrst árið 2016. Já, við skulum vona, ég og hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir, að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd láti heldur betur (Forseti hringir.) hendur standa fram úr ermum og klári þetta mál.