145. löggjafarþing — 104. fundur,  29. apr. 2016.

rannsókn á aflandsfélögum Íslendinga og skattundanskotum.

711. mál
[16:47]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég kem fyrst og fremst hingað upp til að þakka hv. 5. þm. Suðvest. Willum Þór Þórssyni kærlega fyrir góða ræðu, mjög málefnalega, og síðast en ekki síst stuðning við þessa tillögu. Mér finnst góður bragur á því sem samflokksmaður hans, hv. þm. Frosti Sigurjónsson, hefur sagt í stuttu andsvari um þessa tillögu; jákvæðni og stuðningur við þá hugmynd sem hér er sett fram um að skipa rannsóknarnefnd og fara í gegnum þetta. Hv. þingmaður fór ágætlega í gegnum báða liði tillögunnar.

Í stuttu andsvari langar mig fyrst og fremst að þakka honum fyrir jákvæða afstöðu og stuðning. Ég velti því fyrir mér hvort hann og hv. þm. Frosti Sigurjónsson, sem báðir eru þingmenn í þingflokki Framsóknarflokksins, eigi sér fleiri stuðningsmenn í Framsóknarflokknum hvað varðar stuðning við þessa tillögu. Ég spyr hvort það séu ekki örugglega fleiri sem vilji stuðla að því að tillagan fái þinglega meðferð, að hún fari með öðrum orðum ekki bara til nefndar til að daga þar uppi, heldur verði unnið með hana og hún komi hér til seinni umræðu og atkvæðagreiðslu. Er ekki hægt að treysta því að það séu fleiri jákvæðir og góðir framsóknarmenn í þingflokknum um þessar mundir?