145. löggjafarþing — 104. fundur,  29. apr. 2016.

rannsókn á aflandsfélögum Íslendinga og skattundanskotum.

711. mál
[16:59]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil nota þetta tækifæri, um leið og ég veiti andsvar við ræðu þingmannsins, til að fagna þessari umræðu og því að hún hefur orðið málefnalegri og meira upplýsandi eftir því sem liðið hefur á hana, öfugt við það sem stundum vill verða hér í þingsal. Ég, eins og eflaust margir aðrir þingmenn, hef síðustu daga velt fyrir mér hugtakanotkun og reynt að átta mig á umræðunni. Að því leyti hefur umræðan hér í dag verið mikilvæg. Ég hef líka verið að velta því fyrir mér að í öllum áföllum eða óvæntum atburðum felist tækifæri. Þess vegna hef ég fagnað því að í dag höfum við verið að velta fyrir okkur tækifærum samfélagsins, sem þó felast í þeim uppákomum og þeirri umræðu sem farið hefur fram síðustu daga. Ég tek þess vegna undir síðustu orð hv. þm. Katrínar Jakobsdóttur: Hvað getum við lært?

Í dag hefur verið farið ágætlega yfir neikvæðu hvatana til þess að stofna aflandsfélög. En ég velti fyrir mér: Hver var hvati íslensku bankanna til þess að beina öllum þessum íslensku viðskiptavinum í þann farveg að stofna þessi félög og flytja fé til aflandseyja eða aflandsríkja? Það hlýtur að vera einhver viðbótarhvati þarna því að þar sem er illa fengið fé þar þarf heiðarlega aðila, og það þarf hvata til að draga þá inn á þessi svæði. Er þingmaðurinn sammála því að það sé eitt af því sem við þurfum að fá fram í þeim lærdómi sem við drögum af þessu? Hvað er það sem dró íslensku bankana þangað? Því það er eitt af því sem ekki má endurtaka sig.