145. löggjafarþing — 104. fundur,  29. apr. 2016.

rannsókn á aflandsfélögum Íslendinga og skattundanskotum.

711. mál
[17:01]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég veit að ekki er ætlast til þess að ég spyrji hv. þingmann spurninga en ég leyfi mér að túlka orð hv. þingmanns sem svo að hún sé jákvæð gagnvart þessari tillögu og geti hugsað sér að styðja hana. Hún leiðréttir mig þá ef svo er ekki.

Það má segja að það sem við höfum séð í gegnum Panama-skjölin sé áþreifanleg birtingarmynd þess sem við lásum áður um í rannsóknarskýrslu Alþingis þar sem fjallað er um það, sem hv. þingmaður nefnir í sínu andsvari, þ.e. þá starfshætti að fara með mjög mikla fjármuni úr landi í gegnum aflandsfélög í margháttuðum vafningum, ef við getum sagt það, eins og við höfum áþreifanleg dæmi um, til að hafa áhrif á stöðu bankanna, til að hafa áhrif á lánstraust bankanna. Þar voru vissulega hvatar til staðar.

Það er áþreifanlegra að sjá þetta, sjá tölvupóstana, sjá hvernig hlutirnir eru gerðir en að lesa um það í skýrslu. Það er kannski ástæðan fyrir því að margir hafa fengið áfall undir þessari umfjöllun þótt þeir hafi áður heyrt um þessa starfsemi. En umfangið var mikið. Það sem er svo áþreifanlegt líka er að þarna eru svo mörg fyrirtæki undir ekkert endilega öll með háum fjárhæðum. Hvatinn til að stofna aflandsfélög virðist ekki bara vera sá að komast hjá skattgreiðslum heldur líka að njóta leyndarinnar, njóta þess að regluverkið er ekki hið sama, ekki sama krafa um ársreikninga og upplýsingagjöf og annað slíkt, sem kynni þá að teljast ívilnun frá þeim reglum sem við erum samt búin að ákveða að hafa hér á landi. Það hafa væntanlega verið hvatarnir fyrir þá sem síðan ákváðu að fylgja ráðgjöfinni og stofna slík aflandsfélög. En þetta hafði áhrif á heildarstöðu bankanna eins og þeir voru reknir hér fyrir hrun.