145. löggjafarþing — 104. fundur,  29. apr. 2016.

rannsókn á aflandsfélögum Íslendinga og skattundanskotum.

711. mál
[17:04]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svörin. Mig langar þá að spyrja hv. þingmann hvernig hún sér fyrir sér samspil þeirra viðbragða sem nú eru að fara af stað — þ.e. samþykkt ríkisstjórnarinnar frá því í morgun um starfshóp, sem er fyrst og fremst skipaður úr stjórnsýslunni og aðilum sem vinna við að framfylgja löggjöf og koma með tillögur til úrbóta í löggjöf — og annarra þátta. Það er samspil þeirra tillagna sem hér eru til umfjöllunar, og fara ef ég þekki rétt til til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þingsins, við þá vinnu sem nú þegar er hafin í efnahags- og viðskiptanefnd. Ég tel kannski kostinn við þá umræðu sem hér fer fram í dag þann að þingmenn verða betur upplýstir og betur búnir undir þær tillögur sem kunna að berast úr stjórnsýslunni. Hvernig sér hv. þingmaður þetta samspil verða sem best, að unnið sé á fleiri en einum vettvangi eða að vinnan sameinist á einhverjum tímapunkti í einn stað?

Ég fagna þessum tillögum að því leyti að ég tel markmiðin mikilvæg. Ég er sammála því meginmarkmiði að við nýtum þessa umræðu og þessa vinnu til að læra af, til að læra á það hverjir hvatarnir voru, hvað dró þá aðila sem hafa kannski árum saman stundað heiðarleg viðskipti inn á þennan vettvang og hvernig hægt sé að breyta því viðhorfi til framtíðar að þetta sé sjálfsagt.