145. löggjafarþing — 105. fundur,  2. maí 2016.

afstaða Framsóknarflokksins til skattaskjóla.

[15:04]
Horfa

forsætisráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Stefna framsóknarmanna er mjög skýr og það hefur meðal annars komið fram hér að við fengum formann efnahags- og viðskiptanefndar, Frosta Sigurjónsson, til að leiða þá vinnu. Ég veit að sú vinna hefur gengið mjög vel.

Fyrir liggur skýrsla sem nefndin hefur unnið um möguleika á því sem hægt er að gera hér á landi. Þar við bætist það sem áður hefur verið gert og fram hefur komið, að Ísland er með þeim löndum sem lengst hafa gengið í að upplýsa slík mál.

Það er líka ljóst að sá sem hér stendur hefur nokkrum sinnum úr þessum ræðustól hvatt þá sem ekki hafa gert hreint fyrir sínum dyrum, hafa farið með peninga í leynd og svikið undan skatti, að gera hreint fyrir sínum dyrum.

Síðan er ríkisstjórnin búin að setja á laggirnar starfshóp sem á að skila af sér innan mjög skamms tíma með aðild ríkisskattstjóra, skattrannsóknarstjóra, tollstjóra og fleiri aðila sem eiga að fara yfir þá möguleika sem þar eru innan borðs til þess einmitt að rannsaka, draga fram og skýra þau mál. Afstaða okkar í þessum málum er því mjög skýr.

Af því að hv. þingmaður nefndi framkvæmdastjórann kom það einmitt fram að hann hafði stofnað tvö félög fyrir 12 eða 14 árum síðan sem höfðu líka lagt upp laupana eða voru í einhverjum ákveðnum tilgangi. Annað félagið var vegna viðskipta sem komu hvorki starfi hans sem framkvæmdastjóri Framsóknarflokksins né Framsóknarflokknum yfir höfuð nokkurn skapaðan hlut við. Það var nýsköpunarfyrirtæki sem var að fara á erlendan markað. Hitt var ekkert ósvipað mál og bæði Landsvirkjun og Orkuveita Reykjavíkur hafa verið að skoða varðandi vátryggingastarfsemi þar sem hann var eins konar milligöngumaður, sem oft eru lögfræðingar.

Það er mjög mikilvægt í þessari umræðu að við gerum greinarmun á því sem er löglegt og því sem er ólöglegt þar sem fólk svíkur (Forseti hringir.) undan skatti. Þar er ég sammála þeim sem hafa sagt að gera þurfi allt sem hægt er að gera.

Það var ánægjulegt að sjá að jafnaðarmenn í Danmörku eru meira og minna sammála þeim hugmyndum og tillögum að úrlausnum sem ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks hefur lagt fram.