145. löggjafarþing — 105. fundur,  2. maí 2016.

fullgilding Parísarsamkomulagsins í loftslagsmálum.

[15:12]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka þessa ágætu fyrirspurn. Sérstaklega finnst mér nú gaman að heyra að fólk sakni ýmissa mála á okkar ágæta lista sem við lögðum fram. Það sýnir þá og sannar að fólk er áhugasamt um að fá fleiri mál, sem er bara afar ánægjulegt.

En að fyrirspurninni. Í okkar huga er það þannig, í tveimur skrefum: Fyrst er það undirskriftin og síðan er það fullgilding. Nú hefur Ísland ásamt fjölda þjóða undirritað þennan Parísarsamning, sem var kynngimögnuð stund úti í New York og gaman að hafa tekið þátt í því. Það er laukrétt að fullgildingin er eftir. Ég get sagt hv. þingmanni að þýðing er hafin á samningnum og við erum að undirbúa fullgildinguna. Hvenær hún verður lögð fram veit ég ekki nákvæmlega, það eru líka hugleiðingar um hvort nauðsynlegt væri að leggja það fram sem þingsályktunartillögu fyrir þingið eða hvort nægjanlegt væri að það færi fyrir ríkisstjórn.

Ég vil segja þingmanninum og þingheimi að mér finnst mjög eðlilegt eins og var gert í Kyoto-samkomulaginu að gera það með þingsályktun. Mér finnst eðlilegt við svona stóran og merkilegan samning að þingið komi með sínar hugleiðingar eða athugasemdir eftir atvikum. En ég vil samt benda á að það var mjög merkilegt, af því að við höfum verið að skoða Kyoto, að Kyoto-samningurinn var nú ekki fullgiltur fyrr en fjórum árum eftir að undirskriftin var gerð. Nú eru ekki liðnir nema tíu dagar frá því að ég skrifaði undir í New York þannig að við gefum okkur alveg tíma fyrir það. (Forseti hringir.) En það er líka rétt sem fram kom hjá þingmanninum að það eru ákvæði í Parísarsamningnum að hann gangi í gildi alþjóðlega þegar minnst 55 ríki hafa skrifað undir (Forseti hringir.) sem eru með samtals 55% af losuninni.