145. löggjafarþing — 105. fundur,  2. maí 2016.

fullgilding Parísarsamkomulagsins í loftslagsmálum.

[15:15]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Ég er ekki að biðja um fleiri mál á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar en ég vil gjarnan sjá þar mikilvæg mál sem er brýnt að afgreiða. Ég mundi telja að þetta væri eitt af þeim málum sem brýnt væri að afgreiða. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þær upplýsingar að undirbúningur að fullgildingu sé hafinn. Af því að hæstv. ráðherra nefnir hér til samanburðar málshraðann þegar um Kyoto var að ræða þá erum við bara komin á annan stað núna. Það má segja að loftslagsmálin séu tifandi tímasprengja og það ætti að vera kappsmál okkar allra hv. þingmanna þvert á flokka að ljúka þessu máli með sóma áður en þinginu lýkur. Ég hvet því hæstv. ráðherra til dáða, að það verði algjört forgangsverkefni að við ljúkum samkomulaginu með fullgildingu. Ég tel eðlilegt að það sé gert hér í þinginu, eins og hæstv. ráðherra segir. Mér skilst að Norðmenn ætli að ljúka fullgildingu núna í júní. (Forseti hringir.) Það er okkur mjög mikilvægt sem þjóð að Ísland láti ekki bíða eftir sér í þessu máli.