145. löggjafarþing — 105. fundur,  2. maí 2016.

fjölgun vistvænna bifreiða.

[15:17]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra út í stefnumótun stjórnvalda varðandi það að fjölga vistvænum bílum. Ég ætla að tala bara um nýorkubíla, bíla sem brenna ekki jarðefnaeldsneyti heldur geta notað metan eða rafmagn. Ég var með skriflega fyrirspurn um þetta í fyrra og fékk svar sem mér fannst ekki nógu gott. Þar er vísað í einhver markmið sem voru sett 2007 og 2008 og einhvern rammasamning 2014 en lítið talað um hvað þessi stjórnvöld hafa hugsað sér að gera. Einnig er talað um útboð fyrir ráðherrabifreiðar sem var auglýst í nóvember 2011.

Vissulega eru ívilnanir í gangi og sumir af þessum nýorkubílum eru dýrari. Þó er það alls ekki algilt. Þeir eru einnig til af öllum stærðum og gerðum þannig að það á ekki að vera nein afsökun. Ef ráðherra eða ríkisstofnun þarf jeppa eða fjórhjóladrifinn bíl eru þeir einnig til sem nýorkubílar. Ég velti fyrir mér hvernig ríkið ætlar að ganga á undan með góðu fordæmi. Í dag er það eiginlega þannig að stofnunum er í sjálfsvald sett hvernig bifreiðar þær kaupa.

Í Hollandi tala menn raunverulega um að árið 2025 verði ekki fluttir inn til landsins bílar sem brenna jarðefnaeldsneyti. Við erum á Íslandi sem við getum rafbílavætt á örfáum árum.

Hvar er stefnan? Það er hún sem ég kalla eftir hér. Að horfa upp á að ráðherrar kaupi sér núna nýja bensínbíla finnst mér alveg út í hött og ég kalla eftir skýrri stefnu. Ég get aftur sett fram skriflega fyrirspurn en ég vil freista þess að fá svör frá hæstv. umhverfisráðherra um stefnu ríkisstjórnarinnar þegar kemur að nýorkubílum.

Hvernig ætlar hún að rafbílavæða landið? Hvernig ætlar hún að tryggja að það verði fleiri bílar sem nota metan og aðra endurnýjanlega orkugjafa?