145. löggjafarþing — 105. fundur,  2. maí 2016.

fjölgun vistvænna bifreiða.

[15:22]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Það er mjög jákvætt að heyra að allt sé í gangi. Ég held að ég fari rétt með þegar ég segi að rafbílar nái ekki 1% af flotanum eins og staðan er í dag sem er mjög lágt hlutfall. Oft er talað um að auka þurfi innviðina fyrir þessa bíla eins og með rafhleðslustöðvum, metanstöðvum og öðru. Það er svolítið hvort kemur á undan, hænan eða eggið. Þarna verður það að haldast í hendur og í rauninni finnst mér að hið opinbera eigi ekki að vera hrætt við að gera stofnunum skylt að kaupa nýorkubíla. Um leið og bílarnir eru komnir út á göturnar verður einhver til að selja þeim rafmagn eða metan eða hvað það er. Við megum ekki vera hrædd þó að núna séu ekki komnar rafhleðslustöðvar um allt land. Eins og ráðherra sagði réttilega er verið að vinna í því og það skiptir auðvitað máli.

Ég ætla að leyfa mér að vera jákvæð og vona að þetta sé allt á blússandi ferð hjá hæstv. ráðherra.