145. löggjafarþing — 105. fundur,  2. maí 2016.

afgreiðsla þingmála fyrir þinglok.

[15:31]
Horfa

forsætisráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Þing er að störfum, öflugur meiri hluti er í þinginu og stefnt er að því að ganga til kosninga í haust. Þangað til eru margir mánuðir. Það er hægt að gera breytingar á starfsáætlun og ljúka þessum verkefnum. Hér eru fjölmargar nefndir. Á sviðum einstakra nefnda eru flókin mál, á sviðum flestra nefnda eru einhver mál sem krefjast talsverðrar yfirlegu og geta talist flókin (Gripið fram í.) en það er eðlilegt, held ég, að á meðan þingið starfi séu allar nefndir í fullu starfi við að leysa þau mál sem eru brýn. Ríkisstjórnin hefur farið yfir þann fjölda, það voru mun fleiri mál á þingmálaskrá. Þarna er um að ræða 75 eða 76 mál sem við teljum vel mögulegt að ljúka og ganga síðan til kosninga. Ég veit að í mörgum tilvikum er stjórnarandstaðan sammála þeim málum, það eru mjög fá mál sem (BirgJ: Ekki 75 málum …) um er pólitískur ágreiningur. Flest málin eru þess eðlis (Forseti hringir.) að flestir eru sammála um að þau horfi til betri vegar. Ég veit að hægt er að ná góðu samkomulagi um að ljúka þeim á þeim langa tíma áður en við göngum til kosninga.