145. löggjafarþing — 105. fundur,  2. maí 2016.

verðmat á hlut Landsbankans í Borgun.

477. mál
[15:39]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Mikið hefur verið rætt um sölu Landsbankans á hlut sínum í Borgun í lok árs 2014 til nokkurra lykilstjórnenda og lykilstarfsmanna Borgunar og fjárfesta sem með þeim unnu að kaupunum. Ljóst er eftir opinbera umræðu að hluturinn hefur verið seldur á verulegu undirverði og að Landsbankinn sem er í eigu ríkisins hefur orðið af mörgum milljörðum króna og þá um leið hafa kaupendur hagnast um marga milljarða króna á undrastuttum tíma. Hæstv. fjármálaráðherra Bjarni Benediktsson tók undir með forsætisráðherra að sala Landsbankans á hlut sínum í Borgun hefði verið klúður.

Bankinn hefur nú samkvæmt frétt Morgunblaðsins óskað eftir svörum frá stjórnendum Borgunar um hvort upplýsingum hafi verið leynt þegar gengið var frá sölunni. Þess má geta, virðulegi forseti, að Borgun hyggst greiða 2,2 milljarða í arð á þessu ári. Með því mun eigendum Borgunar hafa verið greiddir 3 milljarðar í arð síðan Landsbankinn seldi 31,2% hlut sinn í Borgun á 2,2 milljarða til hóps fjárfesta og helstu stjórnenda í nóvember 2014 eins og áður komið fram. Arðgreiðslan í fyrra nam 800 millj. kr. og var sú fyrsta sem greidd hafði verið frá árinu 2007. Arðgreiðslur til hópsins sem keypti hlut Landsbankans í Borgun munu því nema tæpum 1 milljarði kr. á tveimur árum, nálægt 50% af kaupverðinu. Ég hef ekki tíma nú, virðulegi forseti, til að fara yfir ferilinn en vek athygli á því enn einu sinni að ég vænti betra skriflegs svar við fyrirspurn sem ég hef lagt fram í þessa veru.

Fyrsta spurning mín nú til hæstv. fjármálaráðherra er eftirfarandi:

Var áður en sala á Borgun fór fram gert verðmat á vegum Landsbankans, Borgunar eða skyldra aðila á fyrirtækinu og/eða eignarhlut Landsbankans í því? Ef svo var, hvert var það verðmat?

Öll fyrirtæki eiga verðmat í sjálfu sér, sérstaklega þegar sala er fyrirhuguð og því má álykta að slíkt verðmat hafi verið til. Ég hef fengið frekari skýringar á því, virðulegi forseti, vegna þess að í fréttum hefur komið fram að nýjasta — ég vek athygli á því, nýjasta — verðmat á fyrirtækinu sé 19–26 miljarðar kr. þannig að hluturinn sem seldur var er orðinn 6–8,5 milljarða kr. virði og hagnaður þeirra sem keyptu 4–6,5 milljarðar kr. á einu og hálfu ári. Hafi verðmat hins vegar ekki verið gert má áætla að andvirði hlutarins í Borgun hafi verið á söludegi á grundvelli sömu aðferðar og bankinn ráðleggur og beitir við sölumeðferð fyrirtækja fyrir viðskiptavini sína — þess má geta að Landsbankinn er alvanur að verðmeta fyrirtæki þegar hann gengur frá sölum eða hjálpar viðskiptavinum sínum með kaup.

Að lokum er ein spurning til viðbótar um fyrirvarann (Forseti hringir.) með kaupsamningi:

Hvers vegna var ekki gerður fyrirvari í sölusamningi um auknar greiðslur til bankans við frekari verðmætaaukningu?

Á síðasta ári voru 5,4 milljarðar færðir í reikninga Borgunar vegna kaupa Visa International á Visa Europe.