145. löggjafarþing — 105. fundur,  2. maí 2016.

verðmat á hlut Landsbankans í Borgun.

477. mál
[15:48]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Ég fagna því sem fram kemur í máli hæstv. ráðherra, að skýrsla um þetta mál verði tekin til umræðu á Alþingi. Sá sem hér stendur hefur rætt þessi málefni hér oft og mörgum sinnum.

Í bréfi Bankasýslunnar til bankaráðs Landsbankans 11. mars síðastliðinn má sjá marga kristalpunkta í því hvað fór úrskeiðis. Í svarbréfi Landsbankans segir til dæmis að haldnir hafi verið fundir með stjórnendum þar sem starfsemi Borgunar var kynnt og rekstraráætlanir stjórnenda og að kynningar stjórnenda og svör við fyrirspurnum hafi verið lögð fram í sérstakt gagnaherbergi.

Það segir líka að spurningar hafi vaknað hjá Bankasýslunni um verðmat bankans á eignarhlutnum í Borgun vegna þess að það kemur fram bankinn hafi aðallega verðmetið eignarhlutinn miðað við áætlaðar arðgreiðslur frekar en V/H-hlutfall. Það var gert þrátt fyrir þá staðreynd að Borgun hefur ekki greitt arð frá því að félagið var aðskilið frá Kreditkortum árið 2007.

Hér er veruleg (Forseti hringir.) ádeila Bankasýslunnar á yfirstjórn Landsbankans. Þar sem ég var ónákvæmur í ræðu minni hérna fyrir helgina og sagði að bankaráðið hefði ekki tekið þátt í þessu nema að litlu leyti vil ég leiðrétta: Auðvitað samþykkti bankaráðið þetta ráðslag og meiri hluti þess hefur sagt af sér en stjórnendur bankans sitja enn. Það er umhugsunarefni.