145. löggjafarþing — 105. fundur,  2. maí 2016.

verðmat á hlut Landsbankans í Borgun.

477. mál
[15:50]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Það er rétt sem fram kom hjá hæstv. ráðherra áðan, þetta mál hefur varpað skugga á Landsbankann og stöðu hans. Það er mikilvægt að leiða allar staðreyndir þess að fullu til lykta. Nú liggur fyrir af hálfu Bankasýslunnar að hún á eftir að koma fram með frekari upplýsingar og ég fagna þeirri yfirlýsingu hæstv. ráðherra að þær upplýsingar verði ræddar á Alþingi.

En ég vil líka vekja athygli á því að við kunnum að þurfa að ganga lengra en það. Ég vil enn halda opnum möguleikanum á að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis taki þetta mál til sérstakrar rannsóknar því að það sýnir djúpstæðan veikleika í meðferð á sölu eigna sem skiptir máli að vel sé staðið að. Það kann að vera að seljendur hafi blekkt, það kann að vera að kaupendur hafi ekki sinnt rannsóknarskyldu. Við vitum ekki til fulls hvar sökin liggur þar (Forseti hringir.) en það sem þetta ferli allt sýnir hins vegar og yfirlýsingar Landsbankans í því efni líka eru mjög skökk viðhorf í íslensku fjármálakerfi og í æðstu lögum þess og þá sérstaklega að menn gangi út frá því einfaldlega að hægt sé að ákveða verð á eignum sem miklu skipta á grundvelli samtala manna á milli sem þekkjast vel og án (Forseti hringir.) þess að alvörugreining fari fram.