145. löggjafarþing — 105. fundur,  2. maí 2016.

verðmat á hlut Landsbankans í Borgun.

477. mál
[15:54]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Það er sjálfsögð kurteisi að þakka fyrir svarið, en ég verð að segja alveg eins og er að í þessum svörum er ekki neitt. Ég spyr um verðmætið og fæ ekki svar við þeirri spurningu.

Var til verðmat af hálfu Landsbankans, Borgunar eða skyldra fyrirtækja þegar salan átti sér stað? Ef svo var, hvert var það?

Ég spyr vegna þess að í fréttum frá Borgun eða hvaðan sem þær komu, Landsbankanum kannski, var sagt ekki alls fyrir löngu að nýafstaðið verðmat á Borgun væri 19–26 milljarðar kr. Þess vegna er ég að tala um að ríkissjóður hafi í gegnum eign sína á Landsbankanum orðið af 6–8,5 milljörðum kr. á þessu eina og hálfa ári og að hagnaður stjórnenda Borgunar, lykilstjórnenda þeirra, sé á bilinu 4–6,5 milljarðar kr.

Það er alveg hárrétt að Íslandsbanki á ein 63% í hlutnum en þetta eru staðreyndir sem blasa við okkur hér gagnvart sölunni hjá Landsbankanum á Borgun. Ég tek undir með hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni og spyr: Af hverju fæ ég ekki svar við spurningunni? Er Borgun að leyna Landsbankann upplýsingum? Er Landsbankinn að leyna hæstv. fjármálaráðherra upplýsingum?

Virðulegi forseti. Hér er maðkur í mysunni. Af öðrum tilefnum hefur verið farið í rannsókn á málum af minni stærðargráðu. Mér finnst þetta grafalvarlegt mál og nú loksins þegar þetta svar kemur, eða ekki-svar, við lykilspurningum sem hafa fengið aukið vægi vegna þessara frétta um nýjasta verðmatið verður að grafast fyrir um það. Hæstv. fjármálaráðherra verður að ganga fram af meiri krafti við undirstofnanir sínar sem hjálpa til við að búa til það svar sem hefur komið fram sem (Forseti hringir.) svarar ekki spurningunni.

Það þarf enginn að segja mér að menn hafi ekki gert sér grein fyrir verðmæti fyrirtækisins á þessum tíma. Miðað við söluna, 2,2 milljarðar á 30%, hefur verið sagt að fyrirtækið væri rúmlega 6 milljarða kr. virði. (Forseti hringir.) Núna er það sem sagt komið upp í 19–26 milljarða. Það er engin smáræðisávöxtun á þessum tíma. Þetta verður að rannsaka miklu betur.