145. löggjafarþing — 105. fundur,  2. maí 2016.

friðun miðhálendisins.

729. mál
[16:10]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Forseti. Ég vil sömuleiðis fagna tóninum í máli hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra.

Ég sit í umhverfis- og samgöngunefnd og þar er verið að fjalla um tillögu þingflokks Vinstri grænna um þjóðgarð á miðhálendinu. Ég get sagt það hér inn í þessa umræðu að sú tillaga hefur mælst vel fyrir. Hún hefur fengið jákvæðar undirtektir frá ýmsum aðilum í atvinnulífinu og það hefur orðið svona ákveðinn viðsnúningur á þessari umræðu. Kannski ekki síst vegna þess að gildi miðhálendisins er orðið mönnum ljósara en líka vegna þess að menn eru farnir að átta sig betur á því að hugmyndin um þjóðgarð þýðir ekki fortakslausa hugmynd um að ekkert megi snerta eins og kom fram í máli hæstv. ráðherra.

Þjóðgarður er góð leið til að skipta viðkvæmu svæði í mismunandi verndarstig og þess vegna held ég að þau sjónarmið sem hafa komið fram í máli ráðherrans og þau sjónarmið sem komu fram í máli tillöguflytjanda séu einmitt samræmanleg (Forseti hringir.) undir hatti þjóðgarðs. Ég hvet ráðherra til þess að skoða það með okkur sem eitt af þeim mikilvægu málum sem við ljúkum nú fyrir kosningar.