145. löggjafarþing — 105. fundur,  2. maí 2016.

friðun miðhálendisins.

729. mál
[16:12]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Formaður Sjálfstæðisflokksins gaf þrjár mjög mikilvægar yfirlýsingar í sinni stuttu ræðu áðan.

Í fyrsta lagi sló hann fyrir sína parta í reynd út af borðinu hugmynd um háspennulínu yfir Sprengisand. Það er gríðarlega mikilvægt. Þá tel ég að það liggi fyrir mjög afgerandi meiri hluti í þessum þingsölum gegn því að í slíka framkvæmd verði ráðist, en það er mesti háskinn sem miðhálendinu er búinn.

Í öðru lagi sagði hann að þessi umræða þyrfti tíma og sagðist ekki sjá neitt geta gerst á næstu áratugum sem gæti skemmt möguleika hennar. Það er mikilvægt að formaður Sjálfstæðisflokksins lýsi því yfir vegna þess að það þýðir að hann er þá væntanlega, að minnsta kosti fyrir sína eigin hönd ef ekki fyrir hönd síns flokks, að lýsa því yfir að ekki verði ráðist í ýmsar af þeim framkvæmdum sem hér voru mjög til umræðu af hálfu flokksmanna hans á síðasta löggjafarþingi sem mundu að sjálfsögðu kollvarpa hugmyndum um þjóðgarð á miðhálendinu.

Í þriðja lagi sagðist hann telja að það ríkti núorðið mikil samstaða um þessi mál á Alþingi Íslendinga. Það finnst mér vera mjög jákvætt, að hæstv. fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins telji (Forseti hringir.) skoðanir sínar hafa þróast með þeim hætti að þær séu nú í meginstraumi umræðu hér á þinginu. Þar með má segja um hæstv. ráðherra það sem Steinn Steinarr sagði einu sinni: Líkast til erum við alltaf að verða að betri mönnum.