145. löggjafarþing — 105. fundur,  2. maí 2016.

friðun miðhálendisins.

729. mál
[16:16]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmönnum sem hafa talað og hæstv. ráðherra fyrir svör hans. Ég hef að sjálfsögðu skilning á því að hann ræðir ekki hér viðskiptamálefni Landsvirkjunar en lýsir skoðunum sínum með almennum hætti. Ég er sammála hæstv. ráðherra að við eigum ákveðin tæki til að koma okkar pólitísku stefnumótun á framfæri. Það er annars vegar rammaáætlun um nýtingu og vernd og hins vegar getur Alþingi tekið ákvarðanir um þjóðgarða. Ég held að það sé mjög mikilvægt sem hv. þm. Svandís Svavarsdóttir benti á, að þjóðgarður þýðir ekki alfriðun. Þar geta verið mjög mismunandi verndarsvæði og eins og hæstv. ráðherra bendir réttilega á eru mannvirki á hálendinu. Við vitum það. En það geta verið mismunandi verndarsvæði eins og við þekkjum erlendis frá. Ég held því að það yrði mjög áhugavert ef hv. umhverfis- og samgöngunefnd skoðaði vel þá tillögu sem nú liggur fyrir, sem snýst um að farið verði í undirbúningsvinnu fyrir stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu í samráði við heimamenn og aðra hlutaðeigandi aðila og stefnt verði að því að þar verði ráðist í stofnun þjóðgarðs 2018 þegar 90 ár verða liðin frá friðun Þingvalla. Þegar við komum á Þingvelli í dag þökkum við þeim sem höfðu framsýni á þeim tíma að horfa til þessa staðar sem helgistaðar okkar, bæði hvað varðar náttúru og sögu. Ég held að þegar við horfum fram í tímann og veltum fyrir okkur hvernig komandi kynslóðir eigi eftir að líta til starfa okkar gæti verið mikill sigur í því fyrir það þing sem nú situr ef þessi tillaga yrði tekin til alvarlegrar umræðu og afgreiðslu. Ég vona að það sé að verða æ meiri samhljómur meðal ólíkra flokka í þeim málum. Ég held að við værum að vinna komandi kynslóðum mikið gagn ef við gætum séð fram á stofnun miðhálendisþjóðgarðs 2018.