145. löggjafarþing — 105. fundur,  2. maí 2016.

Fell í Suðursveit og Jökulsárlón.

725. mál
[16:32]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. umhverfisráðherra mjög jákvæðar undirtektir við þeirri málaleitan sem kom fram í máli hv. framsögumanns Steinunnar Þóru Árnadóttur. Ég tel einboðið að ef jörðin Fell kemur á markað þá nýti ríkið sér forkaupsrétt. Eins og ráðherra sagði eru mörg dæmi um það. Ég keypti á sínum tíma sem umhverfisráðherra 2/3 Látrabjargs, fyrir hönd ríkisins, á 800 þús. kr. árið 1994, sem þættu reyfarakaup í dag. Var þó harðlega deilt á þau kaup, einkum úr mínum flokki, Alþýðuflokknum. En það er nú önnur saga.

Mér líst líka alveg stórkostlega vel á þá hugmynd sem hæstv. ráðherra reifar hér, að stækka þjóðgarðinn til sjávar og að því gerðu að freista þess með hæstv. menntamálaráðherra að koma þjóðgarðinum á heimsminjaskrá. Þess vegna finnst mér að það eitt og sér verðskuldi að hæstv. ráðherra skoði það ef jörðin kemur ekki á markað að (Forseti hringir.) eignarnámsákvæði náttúruverndarlaga verði beitt til þess og vel hægt að rökstyðja það.