145. löggjafarþing — 105. fundur,  2. maí 2016.

Fell í Suðursveit og Jökulsárlón.

725. mál
[16:34]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka þeim hv. þingmönnum sem hafa tekið þátt í umræðunni um þessa fyrirspurn, sem og hæstv. ráðherra fyrir svör hennar. Það hefur náttúrlega komið berlega í ljós í þessari stuttu umræðu að þetta mál er langt frá því að vera einhvern veginn flokkspólitískt. Þetta er einmitt dæmi um mál sem ég tel að hægt sé að ná mjög góðri og breiðri þverpólitískri sátt í.

Mér finnst gott að heyra það sem hæstv. ráðherra sagði, að ríkið hafi forkaupsrétt, og tel raunar einboðið að ef eða þegar landið verður selt þá noti ríkið þann forkaupsrétt sinn og ég vil þar brýna hæstv. ráðherra enn frekar til góðra starfa í því. Ég held einmitt, líkt og ég sagði áðan, að nú sé tækifæri til þess að ríkið stígi inn og eignist allt landið umhverfis Jökulsárlón. Ég vil líka fagna því hvað hæstv. ráðherra tók í raun jákvætt í það að Jökulsárlón verði hluti af Vatnajökulsþjóðgarði. Ég tel reyndar að ef koma á landinu á heimsminjaskrá UNESCO sé enn brýnna en áður að ríkið eigi allt landið sem er þar í kring. Ég held að það mundi gefa svæðinu meiri vigt og auðveldara fyrir ríkið að hafa áhrif á landið þar.

Að lokum vil ég árétta þá stefnu okkar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði sem er mjög skýr, en hún er sú að náttúruperlur (Forseti hringir.) eigi að vera almannaeign eftir því sem við verður komið og væri kannski gaman að beina þeirri aukaspurningu til hæstv. ráðherra í lokin hver sýn hennar sé á það.