145. löggjafarþing — 106. fundur,  2. maí 2016.

alþjóðlegar viðskiptaþvinganir gagnvart lágskattaríkjum.

733. mál
[16:57]
Horfa

Flm. (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ástæða tillöguflutningsins er sú staðreynd að orðspor Íslands hefur beðið mikinn hnekki. Við höfum verið á forsíðum helstu blaða og fremst í fréttatímum og forustumenn ríkisstjórnarinnar settir á hópmynd með Assad Sýrlandsforseta og Pútín Rússlandsforseta. Það er hópmynd sem Ísland á ekkert með að vera á. Skýr stefnumörkun af Íslands hálfu um forustuhlutverk í aðgerðum gegn skattaskjólum held ég þess vegna að sé rétt, eðlilegt og rökrétt svar fyrir íslensk stjórnvöld.

Við getum síðan velt því fyrir okkur hvort viðskiptabönn gagnast. Mér þykja röksemdir hv. þingmanns í því efni vera almennar athugasemdir hvað varðar gildi viðskiptabanna. Ég hef mikla trú á viðskiptabönnum og tel þau mjög mikilvægan þátt í alþjóðaréttarkerfinu vegna þess að þau eru að óbreyttum alþjóðalögum eini valkostur okkar við beitingu vopnavalds. Ef við erum ekki tilbúin að beita vopnavaldi holt og bolt er mjög mikilvægt að viðskiptabönn virki og að þeim sé beitt ef menn telja aðstæður með þeim hætti að það sé réttlætanlegt.

Hv. þingmaður rekur líka hlut Bandaríkjanna í þessu efni sem og Þýskalands og slíkra ríkja. Í einstökum ríkjum hefur gætt tilhneigingar til þess að reyna að búa til skattaskjól heima fyrir til að missa ekki peningana burt úr löndunum. Hluti af stefnumörkun af þessum toga er auðvitað að ríkin (Forseti hringir.) sem að banninu standa skuldbindi sjálf sig til að ryðja út öllum sambærilegum lausnum heima fyrir, ella er auðvitað algerlega ómögulegt að fara af stað í þetta verkefni.