145. löggjafarþing — 106. fundur,  2. maí 2016.

alþjóðlegar viðskiptaþvinganir gagnvart lágskattaríkjum.

733. mál
[17:06]
Horfa

Flm. (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessa ágætu líkingu með kókflöskuna og nektarstaðinn sem hún flutti frá Margréti Kristmannsdóttur. Ég held að hún hitti svolítið naglann á höfuðið þarna. Varðandi það hvort við getum verið í fararbroddi finnst mér skorta nokkuð á skýrar línur af hálfu ríkisstjórnarinnar. Eins og ég kvartaði yfir við hæstv. forsætisráðherra í dag fannst mér satt að segja ekkert sérstaklega uppörvandi við núverandi aðstæður að heyra forustu Framsóknarflokksins lýsa því yfir að engin ástæða væri fyrir framkvæmdastjóra Framsóknarflokksins að segja af sér. Ég hefði kannski frekar fagnað því ef ég hefði verið formaður Framsóknarflokksins að hann stigi þetta skref og þakkað honum fyrir og hrósað og látið þar við sitja. Mér finnst líka staða hæstv. fjármálaráðherra mjög skrýtin og mér finnst menn ekki alveg hafa komið fram af hálfu ríkisstjórnarinnar með skýra fordæmingu á því og þá á ég ekki við að menn fari að lýsa alla glæpamenn sem hafa farið í aflandsfélög heldur einfaldlega segi: Það er óeðlilegt, hættulegt fyrir samfélagið og siðferðilega ámælisvert að halda fé í skattaskjólum. Svo skapar þetta alls konar vangaveltur. Okkur voru að berast upplýsingar um að stærsti kjúklingabóndi landsins, sem nýtur gríðarlegs hagræðis og gríðarlegra fjármuna af opinberum stuðningi í formi innflutningsverndar, er aflandsfélag. Hér liggur fyrir dyrum áhugi ýmissa þingmanna í mörgum flokkum á að halda áfram stuðningi sem gerir þá þessum aðilum kleift að njóta áfram gríðarlegs peningalegs hagræðis af innflutningsbanni. Mér finnst við þurfa að spyrja okkur ýmissa spurninga að þessu leyti.