145. löggjafarþing — 106. fundur,  2. maí 2016.

alþjóðlegar viðskiptaþvinganir gagnvart lágskattaríkjum.

733. mál
[17:13]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um alþjóðlegar viðskiptaþvinganir gagnvart lágskattaríkjum. Ég kem aðallega hingað upp til að lýsa yfir stuðningi við markmið þessara aðgerða sem er að sjálfsögðu að finna leiðir til að koma í veg fyrir leynd yfir eignarhaldi félaga í lágskattaríkjum og koma í veg fyrir skattundanskot. Við getum öll verið sammála um að þessi markmið eru mikilvæg og góð. Ísland á að vera í fremstu röð ríkja í baráttunni gegn starfsemi skattaskjóla, ekki síst í ljósi þess hve Ísland kemur sterklega og víða við sögu í gögnum Mossack Fonseca.

Leyndin sem skattaskjól bjóða fyrirtækjum upp á hefur verið misnotuð á margvíslegan hátt til að komast hjá skatti, til að sneiða hjá reglum um fjármálamarkaði um flöggunar- og yfirtökuskyldu, til að falsa eigið fé fjármálastofnana og til að fela illa fengið fé. Fjölþjóðleg fyrirtæki hafa notað skattaskjólin til að færa hagnað frá þeim ríkjum þar sem hin raunverulega starfsemi á sér stað, og hinn raunverulegi virðisauki og hagnaður verður til, og flutt yfir í skattaskjól þar sem skattar eru lægri til að forðast að greiða skatta til samfélagsins. Undanskot frá sköttum grafa undan velferð og jöfnuði í samfélaginu. Því er það ávallt, og ætti að vera, markmið stjórnvalda að berjast gegn slíkri starfsemi.

Verkefnið er flókið vegna þess að skattaskjólin eru sjálfstæðar lögsögur. OECD hefur tilgreint 28 ríki sem hafa ekki uppfyllt samkomulag og samninga um upplýsingaskipti um fyrirtæki sem eru rekin í þessum lögsögum. Á meðan nokkur slík ríki eru starfandi, sem ekki uppfylla þessi ákvæði, er hægt að koma peningum í skjól og fela þá fyrir skattyfirvöldum.

Í þessari tillögu er lagt til að sú leið verði farin að Ísland beiti sér fyrir alþjóðlegum viðskiptaþvingunum gagnvart lágskattaríkjunum, að það sé betra en að fara með vopnavaldi gegn þeim. Ég get fallist á það. Framsögumaður kom því á framfæri að það væri betra en að beita vopnum, ég er alveg sammála því. En ég er ekki sammála því að þetta sé eitthvað sem Ísland ætti að beita sér fyrir. Ísland er eitt af þeim ríkjum sem er hvað háðast alþjóðaviðskiptum af öllum ríkjum sem maður skoðar. Ísland er lítið, opið hagkerfi og við erum mjög illa útsett fyrir því ef einhverjir mundu ákveða að beita okkur viðskiptaþvingunum.

Við þurfum að finna önnur tæki og trúverðugri af okkar hálfu til að fá aðra til að fara að okkar ráðum. Ég held að þar sé langbest að fara fram með góðu fordæmi og fortölum; reyna að sýna gott fordæmi og taka þátt í alþjóðlegu samstarfi, vera liðtæk í því og framarlega í flokki. En að beita sér fyrir alþjóðlegum viðskiptaþvingunum held ég að sé ekki trúverðugt, síst af öllu þegar þessar skattalögsögur eru Bandaríkin, Þýskaland, Hong Kong — það er þar sem stóru peningarnir eru þvegnir samkvæmt upplýsingum frá Tax Justice Network. Og ég er ekki viss um að það sé leiðin til að hirta þau til hlýðni, að Ísland hóti að eiga ekki í viðskiptum við þau; ég held að þau hlæi bara að því.

Margt jákvætt kemur fram í þessari tillögu og greinargerðinni með henni. Þar er meðal annars farið yfir allt það alþjóðlega samstarf sem Ísland hefur tekið þátt í. Ég veit að það eru mikil tækifæri fyrir okkur að vera þar framarlega í flokki. Ef markmiðið er að bæta ímynd landsins út á við verðum við að gera trúverðuga hluti, hluti sem raunverulega skila árangri.

Við þurfum að sjá til þess að við sjálf séum ekki skattaskjól, að Ísland sé ekki staður þar sem hægt er að fela raunverulegt eignarhald á peningum. Því miður er það hægt í dag. Ísland er skattaskjól á ýmsa vegu. Fyrir útlendinga og fyrir stóriðju sem hefur samið hér um að greiða ekki skatta. Við erum með engar sérstakar kröfur í hlutafélagalögum okkar um að raunverulegur eigandi sé skráður á félögunum. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við gerum bragarbót á því. Það er hægur vandi að stofna hér félög og eigandinn að hlutnum sé annað félag og svo koll af kolli.

Eitt af því sem efnahags- og viðskiptanefnd fór strax í, þegar þing kom saman aftur, var að bjóða til sín fulltrúum frá skattyfirvöldum, frá skattrannsóknarstjóra, ríkisskattstjóra, Seðlabanka og frá Fjármálaeftirlitinu og ráðuneytum. Við fengum minnisblöð frá þessum aðilum til að benda okkur á leiðir sem væru færar til að sporna við starfsemi skattaskjóla og misnotkun þeirra hér á Íslandi. Það eru alveg ótrúlega margir hlutir sem við gætum gert sjálf. Það er ærinn starfi fyrir okkur að gera það og leiða með góðu fordæmi. Það held ég að sé langbesta leiðin til að bæta ímynd þjóðarinnar hratt og vel á erlendum vettvangi.

Mér sýnist margt af því sem aðrar þjóðir eru að gera því miður vera í hálfgerðu skötulíki. Það er mikil sýndarmennska að hafa frumkvæði að árásum á litlar lögsögur í Suðurhöfum en vera á sama tíma að skjóta skjólshúsi yfir fyrirtæki með handhafa að hlutabréfum og bjóða upp á alls konar fiff og trix til þess að fyrirtæki greiði litla skatta.

Ég held að Ísland sé í stöðu, með þá velmegun sem er hér í landinu, til þess að neita sér um þá peninga sem mundu koma hingað þessa leið, að laðast að sérstaklega lágu skattumhverfi. Við eigum bara að láta eitt yfir alla ganga, öll fyrirtæki sem hér eru eiga að greiða skatta til samfélagsins. Þannig verða þeir lágir og sanngjarnir. Þannig skekkja þeir ekki myndina. Ég er til dæmis ekki hlynntur því að hér verði erlendum sérfræðingum boðin betri kjör en íslenskum sérfræðingum en fyrir þinginu er frumvarp um að þeir eigi að borga 25% lægri skatta af því að þeir eru með annað þjóðerni eða hafa alist upp annars staðar eða menntað sig annars staðar. Mér finnst það ekki góður bragur. Hér eru kvikmyndafyrirtæki sem koma erlendis frá og fá skattfríðindi hér. Það eru spurningar um það — eru ekki flest farmskip okkar skráð í lögsögu á einhverjum Jómfrúreyjum einhvers staðar?

Gerum bara alvörubragarbót á þessu. Verum ekki með neina sýndarmennsku. Gerum þetta bara í alvöru þannig að allir borgi skatta sem taka þátt í því að njóta þeirra innviða og þeirrar samneyslu sem hér er, hvort sem það eru fyrirtæki, einstaklingar og hvort sem þeir eru erlendir eða innlendir. Það er aðalpunkturinn minn.

En ég fagna að sjálfsögðu þessari umræðu. Ég fagna anda þessarar tillögu sem er að vinna gegn starfsemi skattaskjóla. En ég er ekki sammála því að Ísland eigi að hafa forgöngu um að beita viðskiptaþvingunum vegna þess að við sjálf erum miklu viðkvæmari fyrir viðskiptaþvingunum en til dæmis Bandaríkjamenn, svo að maður taki þá sem dæmi. Það eru kannski ekki allir sem gera sér grein fyrir því að aðeins 12% af þjóðartekjum Bandaríkjanna koma í gegnum utanríkisviðskipti en 53% á Íslandi. Ef þessar tvær þjóðir færu í einhvers konar viðskiptastríð erum það við sem töpum. Það er alveg fyrirséð. Við ættum aldrei að beita vopni sem við töpum á að beita. Við ættum að beita fortölum og góðum fordæmum. Það er það vopn sem við getum beitt.

Það er það sem ég vildi koma inn á í þessari umræðu en ég hef þetta ekki lengra í bili.