145. löggjafarþing — 106. fundur,  2. maí 2016.

alþjóðlegar viðskiptaþvinganir gagnvart lágskattaríkjum.

733. mál
[17:22]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þessi ræða formanns efnahags- og viðskiptanefndar jók ekki traust mitt á þeirri vinnu sem hann veitir forustu innan nefndarinnar þar sem á að leggja fram hugmyndir um með hvaða hætti við eigum að bregðast við þeim vanda sem augljóslega er kominn upp og upplýstist með birtingu Panama-skjalanna. Hv. þingmaður talar hér eins og Ísland og Þýskaland séu skattaskjól og skattasvindlríki á pari við Bresku Jómfrúreyjarnar. Ekki er hægt að skilja hv. þingmann með öðrum hætti en þeim.

Hann segir að við ættum frekar að rækta garðinn heima hjá okkur og koma í veg fyrir að Ísland sé notað sem skattaskjól. Hann sagði, sem hlýtur að vera rétt hjá honum, hann hefur skoðað þetta miklu betur en ég, að hér væri hægt að nota alls konar fiff, að minnsta kosti til að fela eignarhald. Ég veit ekki hvort hann átti við það líka að komast hjá því að borga skatta. Þau dæmi sem hv. þingmaður nefndi eru náttúrlega allt öðruvísi hvað Ísland varðar, dæmin sem hann nefndi áðan, en þau sem við höfum verið að fjalla um. Hann nefndi til dæmis með hvaða hætti álfyrirtæki komast hjá því að borga skatta. En það er þó fjandakornið, afsakið herra forseti, að mér varð á að segja þetta, að minnsta kosti þannig að það er allt saman rakið í íslenskum lögum. Það er opið. Menn vita af því. Hér liggja fyrir tillögur og hafa legið árum saman í þinginu um að breyta lögum til að stoppa slíkt. Það sem við erum að tala um og kom fram í Panama-skjölunum er einfaldlega það sem ég kalla meðvitaðan og skipulagðan anga af glæpastarfsemi. Það er ekkert annað þegar það er orðið að stórfelldum iðnaði að búa til fyrirtæki eins og rakið var í gegnum Mossack Fonseca þar sem mönnum er beinlínis beint þangað, stundum með illa fengið fé. Við vitum líka að alþjóðlegir glæpahringir nota það. (Forseti hringir.) Það er þó ekki um að ræða á Íslandi.

Með öðrum orðum, mér finnst að við eigum ekki að drepa umræðunni á dreif (Forseti hringir.) með þeim hætti sem hv. þingmaður var að gera. Vandamálið er af allt öðrum toga en ástandið í Þýskalandi eða á Íslandi. Setjum hlutina í samhengi.