145. löggjafarþing — 106. fundur,  2. maí 2016.

alþjóðlegar viðskiptaþvinganir gagnvart lágskattaríkjum.

733. mál
[17:29]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að fara að vitna í umræður manna í utanríkismálanefnd sem eru náttúrlega bundnir trúnaði (Gripið fram í: Enginn nefndur á nafn.) — enginn nefndur á nafn.

Ég hef ekki farið leynt með þá skoðun mína að ég held að alltaf þurfi aðkomu þingsins þegar Ísland ákveður að taka þátt í viðskiptaþvingunum af nokkru tagi. Við krefjumst þrátt fyrir allt aðkomu þingsins þegar við gerum fríverslunarsamninga við aðrar þjóðir, það er jákvætt. En af hverju krefjumst við ekki þess líka og af hverju er það ekki þannig í okkar verklagi að þegar við ætlum að fara að beita viðskiptaþvingunum gagnvart öðrum ríkjum? Sem geta haft gríðarlega miklar afleiðingar fyrir Ísland, fyrir hin ýmsu héruð og fyrirtæki sem eru algjörlega saklaus, saklaust fólk í útlöndum, við leggjum byrðar á þau fyrirtæki með okkar utanríkisstefnu sem getur verið árásargjörn, getur verið í samfloti með öðrum þjóðum, geta engu að síður orðið mótaðgerðir sem skaða okkur alveg gríðarlega — þá finnst mér að ræða ætti það ávallt á þingi, þessu háa Alþingi, og að við tökum þessa ákvörðun sameiginlega. Svo ættum við að standa með þeim sem lenda í því hér innan lands, hvort sem eru fyrirtæki eða héruð, að þau beri ekki ein tjónið af utanríkisstefnu okkar. Við gerum þetta saman eða við gerum það ekki. Það er minn punktur og hefur alltaf verið.

Það eru ýmsar leiðir til þess að telja þjóðum hughvarf þegar þær vilja ekki gera eitthvað. Það er að reyna að sannfæra þær með góðum rökum og það er að sýna gott fordæmi og síðan verðum við bara að játa það að ég held að viðskiptaþvinganir bitni yfirleitt og oftast á röngum aðilum. Það eru ekki þessir háu herrar og þessir einræðisherrar, þeir láta ekkert hagga sér með einhverjum viðskiptaþvingunum.

Ég hef verið þessarar skoðunar og ég er hennar enn þá og er þess vegna, eins og hv. þingmaður bendir á, að reyna að vara við því að við höfum eitthvert frumkvæði að því að leiða einhvers konar samtök í því að fara út í viðskiptaþvinganir.