145. löggjafarþing — 106. fundur,  2. maí 2016.

alþjóðlegar viðskiptaþvinganir gagnvart lágskattaríkjum.

733. mál
[17:37]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er mjög góð spurning hjá hv. þingmanni, hverjar séu ógnirnar og tækifærin í því að krefjast þess að hluthafar, segjum bara sem eiga meira en 20%, eitthvað svoleiðis, í hlutafélagi séu þekktir alveg niður á einstakling. Ég mundi halda að í þessu gæti falist sú ógn að þeir sem eru með illa fengið fé og vilja leyna sér fari annað. En það gæti líka verið styrkur í því ef Íslandi tækist vel upp og við yrðum fyrirmynd í þessu, að hérna þætti til fyrirmyndar að vera með fyrirtæki. Þá mundi það hugsanlega laða hingað það fé sem vill vera á réttum stað. Norski olíusjóðurinn hefur til dæmis sett sér sterka stefnu í því að fjárfesta út frá siðferðislegum gildum. Eitt af þeim siðferðislegu gildum gæti verið að beina fjárfestingum sínum til lögsaga sem fara virkilega eftir reglunum og hafa reglur sínar til fyrirmyndar. Öllu fylgja tækifæri. Við verðum bara að velja í hvaða félagsskap við ætlum að vera.

Ég er sjálfur hluthafi í mörgum félögum. Mér finnst ekkert leyndarmál við það. Allir mega vita í hvaða hlutafélögum ég á pening og það er allt í lagi. Ég vil gjarnan að það sé ekkert leyndarmál í kringum það. Mér hefur alltaf fundist mjög einkennilegt að leyna því. Hlutafélög sem eru rekin með takmarkaðri ábyrgð eru lögaðilar í sjálfu sér sem hafa skattskyldu gagnvart hinu opinbera. Það eru ákveðin réttindi að fá að reka slíkt fyrirtæki með takmarkaðri ábyrgð og það er mikilvægt til að byggja upp hagkerfið, en mér finnst það ekki nauðsynlega þurfa að fylgja að menn eigi að njóta nafnleyndar í því. Varðandi kennitöluflakk og annað held ég að það sé mjög gott að allt saman sé uppi á borðum, að þeir sem fái að nýta sér þann rétt að vera með sinn rekstur í svona félögum með takmarkaða ábyrgð gefi sig að minnsta kosti upp. Mér finnst meira að segja tilefni til þess að hérna væri rekin almennileg hlutaskrá og hluthafaskrá, að það væri opinber og aðgengilegur gagnagrunnur þannig að þeir sem eigi viðskipti við þessi félög geti áttað (Forseti hringir.) sig á því hverjir standa að baki félaginu og það geti haft áhrif á traustið sem félagið nýtur.