145. löggjafarþing — 106. fundur,  2. maí 2016.

alþjóðlegar viðskiptaþvinganir gagnvart lágskattaríkjum.

733. mál
[17:55]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef auðvitað hagsmunatengsl í þessu máli því að ég er einn af flutningsmönnum málsins. Ég dyl það ekkert að mér rann það til rifja að hv. þingmaður virtist taka svo fortakslausa afstöðu sem ekki var hallkvæm þessu þingmáli á sérkennilegum málefnalegum grundvelli. Sá málefnalegi grundvöllur var að viðskiptaþvinganir gætu leitt til þess að hagur fjölda manna, óskyldra hinum meinta glæp, mundi skerðast. Það eru alveg réttmæt rök hjá hv. þingmanni. Það eru þau rök sem oftast eru notuð gegn alþjóðlegum viðskiptabönnum. Á sínum tíma var alvarleiki málsins talinn svo ríkur varðandi Suður-Afríku að hann tók yfir hagsmuni hins blakka fjölda sem vissulega sætti líka afleiðingum viðskiptabannsins sem að lokum hratt aðskilnaðarstefnunni.

Ef hv. þingmaður hefði hlustað á ræðu hv. þm. Árna Páls Árnasonar var nákvæmlega útlistað í framsögu hans að hér væri til dæmis um það að ræða að hægt væri að beita þvingunum gegn einstaklingum, gegn fyrirtækjum. Ég er einmitt þeirrar skoðunar að það sé nákvæmlega mál af þessum toga sem hægt væri að beita þessum sértækari þvingunum sem við höfum séð vera gripið til í vaxandi mæli á síðustu árum til þess að komast að jákvæðri niðurstöðu sem væri öllum til góða; í þessu tilviki væri í sjálfu sér hægt að beita ferðaþvingunum sem oft eru mjög sterkar gagnvart tilteknum einstaklingum sem koma fram ástandi sem hvetur til, eins og í þessu tilviki, skattalegra glæpa, eða gagnvart einstökum fyrirtækjum eða bara stjórnendum fyrirtækja.

Ég held að þetta mál sé þannig vaxið að hægt væri að slæma ansi föstu og þungu höggi á örlítinn hóp án þess (Forseti hringir.) að það hefði mikil og stór áhrif á breiðan fjölda en hefði samt tilætluð og mikil áhrif á þá sem fyrir verða.