145. löggjafarþing — 106. fundur,  2. maí 2016.

alþjóðlegar viðskiptaþvinganir gagnvart lágskattaríkjum.

733. mál
[17:59]
Horfa

Elín Hirst (S):

Virðulegi forseti. Ég kem hér í ræðustól til þess að ræða þingsályktunartillögu um alþjóðlegar viðskiptaþvinganir gagnvart lágskattaríkjum sem þingmenn Samfylkingarinnar leggja fram.

Á föstudaginn var lögð fram önnur þingsályktunartillaga af svipuðum meiði um rannsókn á aflandsfélögum og skattundanskotum þar sem Vinstri grænir fóru í fararbroddi.

Mig langar bara til þess að segja að þrátt fyrir að ég sé ekki endilega efnislega sammála öllu því sem hér kemur fram þá finnst mér það mjög virðingarvert að menn séu að leggja fram tillögur sem þessar til þess að takast á við það stóra vandamál sem við stöndum frammi fyrir sem er sú leynd og skattundanskot og í raun og veru sú ormagryfja sem opnast hefur eftir að fjölmiðlar birtu svokölluð Panama-skjöl.

Ég held að það verði að segjast eins og er að þrátt fyrir að menn hafi kannski haft illan grun um það, og það hefur náttúrlega margoft komið fram varðandi skattamál bæði hér og erlendis og í samtölum við þá embættismenn og stofnanir sem sjá um halda þessum málum til haga, að margt væri að. En ég held að engan hafi dreymt um að þetta væri í svo miklum mæli og raun ber vitni.

Nú hefur komið í ljós að það á eftir að birta meiri gögn og þá munu fleiri upplýsingar koma fram og þetta beinist bara að ákveðinni lögfræðiskrifstofu í ákveðnu landi. Þannig að ég spyr: Hvað annað er þarna sem ekki er komið fram en kemur vonandi einhvern tíma fram? En það er engin trygging fyrir því.

Þess vegna styð ég þá hugsun sem mér finnst koma fram í þessari þingsályktunartillögu að við Íslendingar, þrátt fyrir að við séum lítil þjóð, eigum við að taka frumkvæðið og við eigum að fá önnur lönd til liðs við okkur í þessu risastóra máli til að menn standi saman í þeirri alþjóðlegu baráttu sem verður að fara fram gegn því sem er í raun og veru ekki hægt að kalla annað en ósóma. Mér sýnist að það muni taka mörg ár eða áratugi að komast til botns í því hvað hér er í raun og veru á ferðinni og það veiti ekki af að byrja strax að láta hendur standa fram úr ermum.

Ég veit að á Íslandi hefur verið kallað eftir hugmyndum frá bæði ríkisskattstjóra og skattrannsóknarstjóra. Fjármálaráðuneytið fór af stað með það strax eftir að þessi mál komu upp á yfirborðið. Þar hafa komið fram margar mjög góðar hugmyndir sem ég hef reyndar ekki fengið að skoða en verða væntanlega kynntar um hvernig stjórnvöld sjái fyrir sér að við beitum okkur í þessum málum. Við verðum aldrei gott samfélag, við verðum aldrei sátt þjóð ef við komumst ekki að þessu meini og náum að uppræta það.

Svo ég taki nú upp orð annarra þá minntist hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson á að þetta væri eins og í stjarnfræðilegu vísindunum, þetta er í raun og veru eins og svarthol þar sem engin birta fær að skína inn og engin birta kemur heldur út. Þar af leiðandi er þetta eitthvað sem er alls ekki ínáanlegt, hvorki varðar upplýsingar, fjármuni né annað.

Þarna verða þjóðirnar að standa saman til þess að hægt sé að opna þessar gáttir sem eru svona kirfilega lokaðar. Flokkur eins og minn leggur áherslu á að við borgum minni skatta frekar en meiri vegna þess að við viljum halda í það að einstaklingarnir geti notið ávaxta sinna verka en það renni ekki allt til ríkisins. Auðvitað verður þetta að gerast allt saman í góðri blöndu, en skattaskjól eru einhverjir verstu óvinir flokks sem hefur það á stefnuskrá sinni vegna þess að skattaskjól gera að verkum að hinir sem standa skil verða að borga miklu meira en ella.

Auðvitað skekkir þetta líka samkeppnisstöðu þeirra fyrirtækja sem standa skil á sínu gagnvart þeim sem ekki gera það. Allt styður því að við stöndum saman, eins og mér sýnist við vera að gera hér á Alþingi, um að lyfta hulunni af þessu máli og opna inn í þetta stóra, ljóta svarthol sem ég tel að skattaskjól séu. Þá er ég að tala um skattaskjól þar sem fólk leynir og geymir peningana sína í stað þess að gefa þá upp til réttra yfirvalda og kemst þá hjá því að standa undir þeirri byrði sem sá samfélagssáttmáli sem við höfum gert hér á landi segir til um að við ætlum að axla sameiginlega, samkvæmt ákveðnum leikreglum, til þess að geta rekið sjúkrahús, skóla, vegakerfi o.s.frv.

Í öllum stórum og flóknum málum er mjög mikilvægt að fram komi hugmyndir og fólk velti fyrir sér hvernig best sé að takast á við vandamálin. Þessar tvær þingsályktunartillögur eru svo sannarlega tilraun til þess. Það verður einmitt mjög fróðlegt að heyra þegar þær verða sendar út til umsagnar hvað aðilar sem láta sig málið varða eða málinu tengjast hafa um þær að segja.

Ég lýsti því yfir á föstudaginn að ég teldi sérstaklega seinni hluta þingsályktunartillögu vinstri grænna um rannsóknarhóp eitthvað sem við ættum að skoða. Mér finnst mjög spennandi að Ísland beiti sér fyrir því og hafi frumkvæði að því að ræða við aðrar þjóðir og tala fyrir alþjóðlegum viðskiptaþvingunum. Mér finnst það vera leið sem gæti alveg gengið upp. Ég vil auðvitað setja fyrirvara, eins og ég sagði á föstudaginn, um stuðning varðandi hvern og einn efnisþátt en vil fyrst og fremst þakka fyrir að þessum hugmyndum sé komið á framfæri í þingmálum og þetta mál sé tekið fyrir á Alþingi eins og einnig er verið að gera víða í þjóðfélaginu. Stofnanir eru að senda embættismenn til fundar við OECD-ríki, G20-þjóðirnar hafa komið saman á skyndifundi eftir að þessi skjöl komu fram o.s.frv. Það er greinilegt að það er mikil alþjóðleg hreyfing vegna þessara uppljóstrana.

Þá megum við ekki gleyma því hverjir það voru sem komu þessum upplýsingum á framfæri en það voru einmitt fjölmiðlar sem eiga miklar þakkir skildar fyrir það, en fjölmiðlar verða eins og allar aðrar stofnanir auðvitað að fara mjög rækilega eftir öllum þeim reglum og lögum sem til þeirra taka.