145. löggjafarþing — 106. fundur,  2. maí 2016.

alþjóðlegar viðskiptaþvinganir gagnvart lágskattaríkjum.

733. mál
[18:09]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Við ræðum nú tillögu til þingsályktunar um alþjóðlegar viðskiptaþvinganir gagnvart lágskattaríkjum sem lögð er fram af þingflokki Samfylkingarinnar. Þetta er raunar annað þingmálið sem kemur hér til umræðu á Alþingi eftir fréttaflutning af gríðarlega miklum eigum Íslendinga á félögum á lágskattasvæðum. Þar kom meðal annars í ljós að ekki aðeins eiga mörg íslensk fyrirtæki félög á lágskattasvæðum heldur einnig ráðherrar í ríkisstjórn á Íslandi.

Það er svolítið merkilegt, vil ég leyfa mér að segja, að það sé að frumkvæði tveggja flokka í stjórnarandstöðu á þingi, annars vegar með þingmáli Samfylkingarinnar hér í dag og svo hins vegar með tillögu til þingsályktunar um rannsókn á aflandsfélögum Íslendinga og skattundanskotum, sem lögð var fram af þingflokki okkar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði síðastliðinn föstudag, sem reynt er að ná utan um þessi mál og koma fram með beinar aðgerðir vegna tengsla Íslands við aflandsfélög.

Ég vil þó segja að ég tel það mjög jákvætt að hv. efnahags- og viðskiptanefnd með hv. þm. Frosta Sigurjónsson í forustu sé að skoða þessi mál og hafi fengið til sín góða gesti og muni halda áfram að skoða málin. Ég tel það góðra gjalda vert og styð hv. þingnefnd í störfum sínum. En það er mín skoðun að það sé alveg gríðarlega mikilvægt að Alþingi Íslendinga taki mjög ákveðið á þessum málum með tillöguflutningi, vegna þess að það varð alveg gríðarlegur trúnaðarbrestur milli þjóðarinnar og ráðamanna með þeim uppljóstrunum sem fram komu í sjónvarpsþættinum góða fyrir nokkrum vikum þar sem farið var yfir tengsl Íslands við aflandsfélög.

Ég hefði viljað sjá hæstv. ríkisstjórn stíga fram og taka meira frumkvæði þegar kemur að því að rannsaka þessi mál og finnst þess vegna leiðinlegt að bæði við umræðuna síðasta föstudag sem og við umræðuna í dag sé hvorki hæstv. forsætisráðherra viðstaddur né hæstv. fjármálaráðherra. Ég hefði talið það gefa umræðunni meira vægi að þeir hefðu verið hér og tekið þátt í umræðunni, en ég fagna því hins vegar mjög að ýmsir hv. þingmenn stjórnarmeirihlutans hér á þingi hafa tekið þátt í umræðunum. Ég tel það mikilvægt því að við þurfum að eiga það samtal. Ég tel að sú tillaga sem þingflokkur Samfylkingarinnar leggur nú fram um alþjóðlegar viðskiptaþvinganir gagnvart lágskattaríkjum sé mikilvægur liður í því að gera upp og skoða þessi mál. Í greinargerðinni segir að með tillögunni sé hæstv. ríkisstjórn falið að beita sér fyrir alþjóðlegum viðskiptaþvingunum gagnvart lágskattaríkjum í þeim tilgangi að sporna við flutningi á fjármagni þangað því að erfitt geti reynst að afla upplýsinga frá slíkum ríkjum og skattleggja með eðlilegum hætti.

Hér er einnig rakið að frá því upplýsingar tóku að berast úr Panama-skjölunum hafi verið uppi háværar kröfur um að stemma þurfi stigu við skattaskjólum og að boðaðar hafi verið alþjóðlegar samræmdar aðgerðir. Mér finnst mjög mikilvægt að Ísland taki þátt í slíkum aðgerðum og leggi sitt af mörkum.

Í greinargerðinni er rakið ágætlega hvað gert hefur verið, m.a. á vettvangi OECD, og farið yfir hinar títtnefndu CFC-reglur. Þær ganga út á skattlagningu vegna eignarhalds lögaðila á lágskattasvæðum eða svæðum sem teljast lágskattaríki, að álagður tekjuskattur af hagnaði félags, sjóðs eða stofnunar er lægri en 2/3 hlutar af þeim tekjuskatti sem lagður hefði verið á hagnað aðilans hefði hann borið ótakmarkaðan skatt í ríkinu sem hann er frá eða er í. Það er skilgreiningin á lágskattaríkjum. Gefinn hefur verið út listi yfir þessi ríki.

Hér er einmitt talað um að til séu ríki eða svæði sem ekki hafa gert samninga um lagaumgjörð í félögum í mörgum landa þessara lágskattaríkja þar sem til að mynda sé ekki skylda að skrá upplýsingar um ársreikninga. Skattrannsóknarstjóri hefur bent á að þess vegna sé engin leið til þess að sannreyna hvort eigendur slíkra félaga gefi rétt upp til skatts. Það er meðal annars það sem þessari þingsályktun er falið að taka á, þ.e. að hægt sé að beita þá viðskiptaþvingunum sem ekki eru tilbúnir til þess að gera slíka samninga. Ég er í sjálfu sér fyllilega sammála því og tel mikilvægt að gera það. Ég vil þó halda til haga því sjónarmiði sem aðeins hefur verið rætt hér í dag, þ.e. að sum lágskattaríki eru fátæk þriðja heims ríki, þó alls ekki öll. Mér finnst mikilvægt að ef fara á út í refsiaðgerðir á annað borð á hendur lágskattaríkjum eigi það að gilda um öll ríki.

Ég verð að segja að það gladdi mig mjög því að það kom mjög skýrt fram í máli hv. þm. Árna Páls Árnasonar, sem er fyrsti flutningsmaður þingsályktunartillögunnar, og var enn fremur ítrekað í andsvari hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar hér áðan að til eru margar tegundir af þvingunaraðgerðum og hægt er að haga þeim þannig að þær bitni ekki á fátækum almenningi í þessum löndum heldur sé hægt að beina þeim sérstaklega að tilteknum hópum. Mér finnst alveg gríðarlega mikilvægt að það hafi komið fram hér í dag. Í rauninni gerir það mig að enn meiri stuðningsaðila þessarar þingsályktunartillögu því að ég tel mikilvægt (Forseti hringir.) að við förum í rannsókn á aflandsfélögum Íslendinga og skattundanskotum hér heima og tökum fyrir að það sé hægt að stunda slíkt. Svo þurfum við líka (Forseti hringir.) að fara í aðgerðir á erlendum vettvangi. Ég tel að það skipti mjög miklu máli inn í þá umræðu að þar ætlum við ekki (Forseti hringir.) að fara einföldu leiðina og fara í aðgerðir gagnvart (Forseti hringir.) fátækum ríkjum heldur ætlum við að huga að hag almennings í þeim ríkjum í leiðinni.