145. löggjafarþing — 106. fundur,  2. maí 2016.

matvæli, slátrun og eftirlit með fóðri.

545. mál
[18:40]
Horfa

Frsm. atvinnuvn. (Haraldur Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um matvæli, lögum um slátrun og sláturafurðir og lögum um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru.

Með frumvarpinu er lögð til breyting á lögum um matvæli sem felst í því að eftirlit með frumframleiðslu matjurta færist frá Matvælastofnun til heilbrigðiseftirlits og að matvælafyrirtæki sem framleiða kapla-, geita- og sauðamjólk skuli hafa starfsleyfi. Einnig eru lagðar til breytingar á lögum um slátrun og sláturafurðir og lögum um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru sem gera ráðherra kleift að innleiða EES-gerðir með reglugerð ef viðkomandi gerð krefst ekki breytingar á lögum.

Nefndin fékk umsagnir um þingmálið og gerir í ljósi þeirra athugasemda er þar komu fram, og eftir að hafa fundað með Eggerti Ólafssyni frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, örlitlar breytingar á frumvarpinu til að skerpa efni þess og laga orðalag.

Við umfjöllun um málið var bent á að þar sem starfsemi er blönduð, þ.e. bæði er stunduð búfjárrækt og matjurtarækt, verði áfram eftirlit af hálfu heilbrigðiseftirlits og Matvælastofnunar. Nefndin bendir á að samkvæmt lögum um matvæli er heimilt að sameina eftirlit og gæti Matvælastofnun því farið með eftirlit með hvoru tveggja. Nefndin telur ákvæði frumvarpsins að mestu til bóta og hvetur til þess að viðkomandi stofnanir leitist við að haga eftirlitsstörfum á sem einfaldastan hátt fyrir þá sem eftirliti sæta og nýti heimildir sameiginlegs eftirlits þar sem það á við.

Herra forseti. Ég rek ekki í máli mínu þær breytingartillögur sem koma fram í þingskjalinu. Undir nefndarálitið skrifa hv. þingmenn Jón Gunnarsson formaður, Haraldur Benediktsson framsögumaður, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Ásmundur Friðriksson, Björt Ólafsdóttir, Kristján L. Möller, Páll Jóhann Pálsson, Þorsteinn Sæmundsson og Hjálmar Bogi Hafliðason.