145. löggjafarþing — 106. fundur,  2. maí 2016.

raforkulög.

639. mál
[18:46]
Horfa

Frsm. atvinnuvn. (Haraldur Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á raforkulögum, nr. 65/2003, með síðari breytingum, um tengingu minni virkjana við dreifikerfi raforku.

Forsaga þessa máls er lítið frumvarp til laga sem atvinnuveganefnd sameinaðist um að flytja um breytingar á raforkulögum, nr. 65/2003, eins og áður segir, er einfaldar mjög aðkomu lítilla virkjana inn á dreifikerfi raforku og gerir mönnum kleift að búa til rekstrarumhverfi fyrir litlar orkuframleiðslustöðvar og eigendum þeirra að nýta raforkuna.

Á fund atvinnuveganefndar komu fulltrúar frá Rarik ohf. Í nefndaráliti því sem ég mæli nú fyrir er mælt fyrir örlitlum breytingum við frumvarpið er mæta þeim sjónarmiðum er komu fram í athugasemdum ofangreindra aðila til að skerpa á löggjöfinni og gera hana einfaldari í framkvæmd.

Herra forseti. Ég rek ekki þær breytingar er fram koma á þskj. 1214. Undir nefndarálitið skrifa Jón Gunnarsson formaður, Haraldur Benediktsson, framsögumaður nefndarálits, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Ásmundur Friðriksson, Björt Ólafsdóttir, Kristján L. Möller, Páll Jóhann Pálsson, Þorsteinn Sæmundsson og Þórunn Egilsdóttir.