145. löggjafarþing — 107. fundur,  3. maí 2016.

störf þingsins.

[13:38]
Horfa

Elín Hirst (S):

Virðulegi forseti. Samgönguáætlun til ársins 2018 er nú til meðferðar í umhverfis- og samgöngunefnd þar sem ég á sæti. Undanfarna daga og vikur höfum við rætt við Vegagerðina, sveitarstjórnarmenn víða um landið og fleiri um samgöngumál sem eru auðvitað einhver mikilvægustu mál sem við þurfum að fást við á hinu háa Alþingi og undirstaða þess að hér sé umferðaröryggi, byggðaþróun og hagvöxtur eins og við viljum sjá í þessu landi. Ljóst er að það þarf að gera stórfelldar endurbætur á samgöngukerfi landsins og verja það frekari skemmdum.

Samtök atvinnulífsins hafa hvatt ríkið til að taka upp samstarf við einkaaðila um fjármögnun samgöngumannvirkja og telja einnig að smærri verkefni eins og það að fækka einbreiðum brúm geti hentað mjög vel í slíku samstarfi, sem kallast á ensku, með leyfi forseta, „public-private partnership“. Framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins er einnig mjög áfram um þessa hugmynd og bendir á að þjóðirnar í kringum okkur svo sem Norðmenn hafi nýtt sér svokallað PPP-samstarf ríkis og einkaaðila á sviði innviðafjárfestinga sem hafi heppnast afar vel.

Við hljótum því að spyrja okkur hvort við Íslendingar séum allt of aftarlega á merinni þegar kemur að því að nýta okkur aðferðafræði við uppbyggingu nauðsynlegra innviða, hvort við séum föst í gömlum sporum sem við þurfum að stíga út úr.

Hvalfjarðargöngin eru auðvitað skýrt dæmi um stórt verkefni af þessu tagi sem heppnaðist mjög vel og eðlilegt og heilbrigt samstarf einka- og ríkisaðila um slíkar framkvæmdir getur skilað þjóðarbúinu mjög góðu, og góðu fyrir okkur öll, landsmenn.


Tengd mál