145. löggjafarþing — 107. fundur,  3. maí 2016.

störf þingsins.

[13:50]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Mig langar að taka undir það sem hv. þm. Björt Ólafsdóttir sagði áðan, ég er mjög hugsi yfir stöðu íslenskra námsmanna hérlendis. Nú er verið að lækka framfærslu námslána um allt að 30% á einu bretti sem þýðir að námsmaður sem fékk 1.000 evrur á mánuði er núna kominn niður í 700 evrur á mánuði. Þetta er allt of mikil lækkun sem kemur allt of hratt.

Við erum ekki komin með nýjustu tölur frá LÍN en svo virðist sem íslenskir námsmenn fari í minna mæli til útlanda en áður. Aldrei áður á tíu ára tímabili hafa verið jafn fáir íslenskir námsmenn við nám erlendis.

Milli áranna 2012 og 2013 og námsárin 2013–2014 fækkaði námsmönnum erlendis um 258, úr 2.333 niður í 2.075. Á sama tíma sjáum við að íslenskir námsmenn fá í sífellt meira mæli styrki frá til dæmis danska ríkinu. Mér finnst það mjög varhugaverð þróun. Við sjáum að þau námslán sem boðið er upp á hér eru einfaldlega ekki samkeppnishæf. Þau gera það að verkum að íslenskir námsmenn sjá sér ekki fært að stunda nám erlendis.

Þegar maður lítur á tölurnar eru um 2.000 manns á íslenskum námslánum erlendis meðan 900 eða 1.000 íslenskir námsmenn eru á dönskum námslánum í Danmörku. Þetta er náttúrlega mjög alvarleg þróun og eitthvað sem við þurfum virkilega að athuga.

Síðast þegar ég vissi vorum við hætt með Garðsstyrkinn. Það gerðist þegar við fengum fullveldið 1918. En það virðist vera að koma aftur. Það er mikill áfellisdómur fyrir þessa ríkisstjórn að hún skuli hafa leyft þessari þróun að halda svona áfram. Síðast þegar ég vissi var allt í blússandi góðæri og ekkert hrun nýskriðið yfir.


Efnisorð er vísa í ræðuna